Ég er að skrifa um hugtakið valdeflingu sem er mikið notað í dag í hinum ýmsu fræðum. Hugtakið finnst ekki í orðabók Eddu og ég er að velta því fram hvenær það kemur fyrst fram í málinu og hver sé viðurtekin skilgreining á hugtakinu á íslensku. Með góðri kveðju,Rétt er að orðið valdefling finnst ekki í Íslenskri orðabók frá 2002 og hefur ekki heldur komist inn í neina þeirra orðabóka sem finna má á málið.is á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Orðið virðist fyrst komast í notkun í upphafi síðustu aldar. Elsta dæmi sem ég hef fundið á tímarit.is er úr Morgunblaðinu 2004 þannig að miklu eldra er það ekki. Ágæt umfjöllun kemur fram í blaðinu Iðjuþjálfinn 2. tbl. 2007, 14):
Hugtakið valdefling (empowerment) hefur tengst réttindabaráttu minnihlutahópa frá því á 7. áratug 20. aldar. Fjöldi fræðimanna hefur gert þetta hugtak að viðfangsefni sínu og skilgreiningar byggjast á mismunandi túlkunum á merkingu þess (Hanna Björg Sigurjónsdóttir, 2006). Einföld skilgreining á valdeflingu er að færa vald þeirra sem hafa það yfir til þeirra sem ekki hafa það (Chamberlin, 1997).[1]Höfundur er skráður Elín Ebba Ásmundsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri. Í spurningunni er beðið um viðtekna skilgreiningu á orðinu. Af því sem segir í tilvitnaðri grein virðast skilgreiningar vera margar eftir túlkun þess sem notar orðið og eina ráðið er að lesa sem mest af stuðningsefni, til dæmis þær heimildir sem finna má vísað til í grein Elínar Ebbu. Tilvísun:
- ^ Iðjuþjálfinn, 29. árgangur 2007, 2. tölublað - Timarit.is. (Sótt 26.06.2018).
- Flickr. (Sótt 13.6.2018).