Í Harðar sögu og Hólmverja, 17. kafla, er sagt frá bardaga milli fóstbræðranna Harðar, Geirs og Helga og Björns blásíðu: "...og höggur Björn til Harðar með tvíeggjuðum mæki." Hvers konar vopn var mækir?Í stuttu máli er tvíeggjaður mækir hið hefðbundna víkingasverð. Eins og á við um mörg önnur vopn í þessum miðaldatextum eru ýmis nöfn notuð yfir sverð, til dæmis hjör, brandur og mækir. Orðið mækir kemur mun sjaldnar fyrir í ritheimildum en orðið sverð, en það er lítið sem greinir sverð frá mæki þegar kemur að lýsingu þeirra og notkun. Í nokkrum tilfellum er mækir sagður stór eða þungur, nokkuð sem gæti ýjað að því að mækir væri stærri eða meiri en hið hefðbundna víkingasverð, en sömu lýsingarorð eru einnig notuð yfir sverð. Það virðist því lítill munur á þessu tvennu, ef nokkur er. Með bæði mæki og sverði hefur verið hægt að veita mjög öflug högg, því fram kemur í ritum að bæði vopnin hafi verið notuð til að höggva svo þungt högg í við, að hvorug eggin sást eftir.
- Kirsten Helgeland, KHM, Creative Commons.