Hvers vegna skrifar maður slétt tala í tveimur orðum en oddatala í einu orði?
Slétt tala ‚heil tala sem 2 gengur upp í‘ og oddatala ‚heil tala sem 2 gengur ekki upp í‘ eru þekkt hugtök í stærðfræði. Fyrra hugtakið er orðasamband í íslensku og því ritað í tvennu lagi en hið síðara samsett orð og því ritað í einu lagi.
Lýsingarorðið sléttur hefur hér merkinguna ‚jafn, flatur‘ enda hafa sléttar tölur stundum verið kallaðar jafnar tölur. Orðstofninn slétt- kemur einnig fyrir sem fyrri liður í nokkrum samsetningum, til dæmis sléttbakur, slétthefill, slétthærður og sléttmáll ‚mjúkmáll, tungulipur‘. Það hefði því mátt hugsa sér að myndað hefði verið samsett orð eins og slétttala í staðinn fyrir slétta tölu en þrjú t í röð hafa hugsanlega fælt frá því að þetta væri ritað í einu orði.
Orðið oddatala er hins vegar samsett orð og eignarfallssamsetning. Samheiti þess í Orðaskrá Íslenska stærðfræðifélagsins eru ójöfn tala og hvöss tala. Fyrri liður þess er karlkynsorðið oddur ‚hvass endi á e-u, broddur‘ (sjá Íslenska nútímamálsorðabók) í eignarfalli fleirtölu. Oddatala er andheiti við slétta eða jafna tölu, þ.e. þær eru ójafnar eða oddhvassar. Það kemur fyrir í fleiri samsetningum, til dæmis oddamaður, oddaflug, og einnig sem fyrri liður í stofnsamsetningum, til dæmis oddborgari, oddhvass.
Elsta dæmið um orðið oddatala í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Stuttri undirvísun í reikningslistinni og algebra (1785:59) eftir Ólaf Stephensen. Á sama stað er talað um sléttar tölur og þær nefndar jafnar tölur:
Jøfn=tala (numerus par.) nefniz sú, hverri deila má med 2, svo eckert gángi af; en verdi þat ecki, heitir hún ójøfn (numerus impar.) edr oddatala.Heimildir:
- Bækur.is - Stutt undirvísun í reikningslistinni og algebra. (Sótt 9.03.2018).
- Íslensk nútímamálsorðabók. (Sótt 9.03.2018).
- Oddatala - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 9.03.2018).
- Orðaskrá Íslenska stærðfræðafélagsins | stæ.is. (Sótt 9.03.2018).
- Ritmálssafn | Árnastofnun. (Sótt 9.03.2018).
- Slétt tala - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 9.03.2018).
- File:Pascal's Triangle with odd numbers shaded.svg - Wikipedia. (Sótt 9.03.2018).