Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessi spurning hefur reynst okkur allerfið. Við byrjuðum á því að fletta upp í öllum tiltækum orðabókum og í ritmálssafni og talmálssafni Orðabókar Háskólans en fundum orðið hvergi. Af því drógum við þá ályktun að orðið væri að minnsta kosti fágætt og hugsanlega nýtt í málinu. Síðan birtum við drög að þessu svari og þá bentu vökulir ungir menn okkur á að orðið væri notað í líffræði.
Og mikið rétt; í Líforðasafni hjá Íslenskri málstöð má lesa að íslensk samheiti þessa orðs eru 'vofuverkur,' 'gerningaverkur' og ensku samheitin eru 'phantom pain', 'phantom limb', 'phantom sensation.' Í safninu er mælt með orðinu 'vofuverkur.'
Með orðinu er átt við það þegar fólk missir til dæmis útlim eins og hönd en finnur samt endrum og sinnum til í honum, til að mynda kláða eða annan verk. Þetta er heldur "draugalegt" þar sem ekki er hægt að klóra sér eða neitt þess háttar. Hins vegar á það sér eðlilega skýringu. Áður héldu menn að verkurinn stafaði af því að taugar sem liggja þar sem útlimurinn var áður væru enn virkar og sendi boð upp til heilans sem vinnur síðan úr þessum fölsku upplýsingum. Nú hallast flestir aftur á móti að því að skýringuna megi finna í gerð sjálfs heilans. Meira um þetta má lesa í svari Heiðu Maríu Sigurðardóttur við spurningunni Getur fólk sem missir útlim enn fundið fyrir honum þótt hann vanti?
Áður en við fundum orðið í líforðasafninu höfðum við séð það í nýlegri ljóðabók, Öll fallegu orðin, eftir Lindu Vilhjálmsdóttur (Reykjavík: Mál og menning, 2000). Í bókinni talar ljóðmælandinn til ástmanns síns sem er látinn. Líta má á bókina í heild sem eitt samfellt ljóð til hans. Þó skiptist hún í kafla sem jafnframt má líta á sem sérstök ljóð en bera hins vegar engin heiti. Á blaðsíðu 9 er fallegt ljóð sem varpar nýstárlegu ljósi á orðið draugaverk; alltént segist ljóðmælandinn hafa skilið það að lokum:
verkurinn
sem ég skildi ekki
vildi kannski ekki skilja
efaðist um
spurði ekki um
og hæddist að jafnvel
verkurinn
sem skildi okkur að
á endanum
svo sár
að ég get ekki skilið hann nú
vil aldrei skilja hann til fulls
í alvöru aldrei
ég finn nóg til í götóttri áru
og skil loksins meinið
skil orðið draugaverk
Þorsteinn Vilhjálmsson og Guðrún Kvaran. „Hvað er draugaverkur? Er þetta fyrirbæri til eða er þetta bara kerlingasögur?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=751.
Þorsteinn Vilhjálmsson og Guðrún Kvaran. (2000, 9. ágúst). Hvað er draugaverkur? Er þetta fyrirbæri til eða er þetta bara kerlingasögur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=751
Þorsteinn Vilhjálmsson og Guðrún Kvaran. „Hvað er draugaverkur? Er þetta fyrirbæri til eða er þetta bara kerlingasögur?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=751>.