Hæ hæ, ég heyrði eitt sinn að fjöldi kinda væri mun meiri en fjöldi manna hér á Íslandi. Vitið þið nákvæmar tölur?Samkvæmt upplýsingum frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) var áætlað að árið 2016 hafi sauðfé í heiminum talið rúmlega 1,17 milljarða. Á sama tíma var mannkynið tæplega 7,5 milljarðar þannig að töluvert er í að kindur skáki mannkyninu hvað fjölda einstaklinga varðar. Kína er fjölmennasta ríki heims, alla vega enn sem komið er. Það er líka það land þar sem flest sauðfé er að finna en í gagnagrunni FAO kemur fram að árið 2016 voru kínverskar kindur rúmlega 162 milljónir talsins. Ástralía er vel þekkt fyrir sauðfjárrækt enda er landið í öðru sæti yfir ríki heims þegar kemur að fjölda sauðfjár. Það stendur þó Kína langt að baki með „aðeins“ rúmar 67,5 milljón kindur. Í þriðja sæti er svo Indland með um 63 milljónir. Á vef Hagstofu Íslands má finna hagtölur í landbúnaði um búfjárfjölda hér á landi. Þar kemur fram að árið 2016 var fjöldi sauðfjár á Íslandi 473.144. Þetta skilar Íslandi í sæti 107 á lista FAO yfir fjölda sauðfjár í hverju landi. Þrátt fyrir að sauðfé á Íslandi sé aðeins um 0,3% í samanburði við það sem gerist í Kína voru fréttir af því Íslendingar ætli að flytja út kindakjöt á kínverskan markað enda er Kína stærsti einstaki innflutningsaðili á kindakjöti í heiminum þrátt fyrir að vera það land sem hýsir flestar kindur. Heimildir:
- World Food and Agriculture Statistical Pocketbook 2018 - FAO Statistics
- FAOSTAT.
- Búpeningur eftir landsvæðum frá 1980 - Hagstofa Íslands.
- Landssamtök sauðfjárbænda - Tollasamningur við Kína.
- A flock of sheep following the shepherd | Joan Campderrós-i-Canas | Flickr. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 12.04.2019).