Hvað þýðir orðið „fisjað"? Notað einu sinni í svari hér á Vísindavefnum: „Okkur er ekki fisjað saman!"Sögnin að fisja er aðeins notuð í orðasambandinu einhverjum er ekki fisjað saman í merkingunni ‘einhver er traustur, sterkbyggður’ sem þekkist frá 19. öld. Einnig kemur fyrir sagnmyndin fisa, það er einhverjum er ekki fisað saman en hún er sjaldséðari. Uppruni er ekki fullljós en sögnin er hugsanlega skyld nafnorðinu fis ‘ögn, hismi, rykkorn’. Nafnorðið er fyrri liður í samsetningunni fisléttur ‘mjög léttur, léttur eins og fis’. Ef einhverjum er ekki fisjað saman þá er hann traustari en fisið. Svarið sem um ræðir: Geta Íslendingar verið stoltir af einhverju? Mynd
- Ský, 7. árgangur 2007, 1. tölublað - Timarit.is. (Sótt 7.5.2018).