Hver er uppruni þess að nota orðið "kúla" þegar verið er að tala um milljón?Að því er mér skilst kom orðið kúla í merkingunni ‘milljón’ fram á árunum 2007–2008 eða jafnvel aðeins fyrr. Orðið í þessari merkingu er því ekki í Íslenskri orðabók en ekki heldur í Íslenskri nútímamálsorðabók sem finna má undir málið.is (1. mars 2018). Merkingin ‘milljón’ er í Slangurorðabókinni á netinu og notkunardæmi sýnt með flettunni: „Kallinn var bara að splæsa í nýjan Bimma, setti Löduna uppí og borgaði 15 kúlur á milli.“ Hvergi hef ég rekist á skýringu á því hvers vegna milljón er kölluð kúla. Ef til vill tengist það orðinu kúlulán, á ensku bullet loan, sem fyrst kom fram á prenti í Morgunblaðinu í júní 1997 samkvæmt timarit.is. Þótt kúlulán hafi oft numið milljörðum voru ýmsir þó smátækari og tóku lán upp á tugi eða hundruð milljóna. Ef einhver veit betri skýringu má hann gjarnan senda hana á Vísindavefinn. Mynd:
- Free photo: Bmw, Auto, Luxury, Sports Car - Free Image on Pixabay - 708597. (Sótt 1.03.2018).