Getið þið útskýrt fyrir mér orðatiltækið "helgidagur" eins og þegar maður klikkar á smá blett við að þrífa bílinn sinn?Orðið helgidagur er fyrst og fremst notað um helgan dag, sunnudag og hátíðisdag innan kirkjunnar. Merkingin ‘ómálaður blettur’ er fengin að láni úr dönsku helligdag. En helgidagur er í íslensku einnig notað um blett sem orðið hefur eftir við þvott á bíl, gólfi, veggjum eða öðru sem verið var að þvo. Í Vestmannaeyjum þekkist enn ein merking en þó tengd hinum. Hana er að finna í verki Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskum sjávarháttum (IV:150). Heimildin er sótt í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
Mikils þótti um vert, að það væri vel gert, því annars gátu orðið bil á milli fiskanna, en þau nefndu Vestmannaeyingar helgidaga.Þarna er það bilið á milli fiskanna sem samsvarar óþvegna eða ómálaða blettinum. Heimild: Mynd:
- Wikimedia Commons. (Sótt 26.9.2018). Birt undir leyfinu Creative Commons 4.0.