Er algengt að húsnæðisverð (reiknuð húsaleiga) sé hluti af vísitölu neysluverðs (VNV) sem mæld er í OECD-ríkjum og eru einhver rök fyrir því að hafa húsnæðisverð sem hluta VNV?Tölfræðideild Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Statistical Department) samræmir aðferðafræði við söfnun og vinnslu upplýsinga um neyslusamsetningu og neysluverðsþróun. Neysluútgjöld eru flokkuð í 14 flokka eða bálka eftir tilgangi (Classification of Individual Consumption by Purpose, COICOP). Leigukostnaður vegna húsnæðis fellur undir bálk 4 hvort heldur er um að ræða reiknaða húsaleigu eða greidda. Við útreikning neysluverðsvísitölu er algengast að útreikningur nái til fyrstu 12 bálkana (sjá til dæmis OECD - Total Consumer price indices - Data and Methods). Bálkar 13 og 14 ná til neyslu opinberra gæða sem afhent eru af félögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (e. not-for-profit) eða af ríki eða sveitarfélögum. Verðlagning þessara aðila byggir á talsvert öðrum forsendum en verðlagning annarra framleiðenda neysluvarnings. Þess má geta að kostnaður vegna kaupa á og reksturs eigin bifreiðar er hluti af COICOP-bálki 7. Evrópski Seðlabankinn styðst við Samræmda verðlagsvísitölu (Harmonized Index of Consumer Prices, HICS) þegar bankinn leggur mat á verðlagsþróun á evrusvæðinu. Reiknuð húsaleiga er enn ekki hluti af þeim verðgögnum sem lögð eru til grundvallar þegar vísitalan samræmda er reiknuð út, en unnið er að því að fella þær upplýsingar inn í gagnasettið. Ástæða þessa er að einstök lönd hafa beitt ólíkum aðferðum við að meta reiknaða húsaleigu eigin húsnæðis. Unnið er að samræmingu. Reiknuð húsaleiga er hluti af upplýsingagrundvellinum þegar framfærslukostnaðarþróun í Noregi er metin, sjá Husleier i Konsumprisindeksen 2012 - SSB. Bandaríki Norður-Ameríku, Danmörk, Þýskaland og Holland beita sömu aðferð, sjá Skriftlig spørsmål - stortinget.no. Húsnæði er einn af stærstu kostnaðarliðum í rekstri sérhverrar fjölskyldu hvort heldur húsnæði er leigt af vandalausum eða hvort líta má svo á að leigutaki og leigusali sé sami aðili. Það fæst því skökk mynd af þróun neyslukostnaðar ef eigin húsnæði er haldið utan neysluverðsvísitölu. Hversu alvarleg sú skekkja er ræðst af vægi eigin húsnæðis bæði í heildarnotkun húsnæðis og í neyslunni í heild. Mynd:
- Reykjavík Blick von der Hallgrímskirkja 09.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 12. 10. 2017).