Hvenær sást orðatiltækið ´þyngra en tárum taki´ fyrst á prenti svo vitað sé? Hvað er átt við með orðatiltækinu?Orðasambandið heimilisbölið er þyngra en tárum taki er eignað Brynjólfi biskupi Sveinssyni (1605–1675). Að vísu mun hann hafa sagt þetta á latínu: mala domestica majora sunt lacrymis (malum ‘böl, skömm, skaði’; domesticus ‘sá sem heyrir til húsinu’; lacrymæ (ft.) ‘tár, grátur’). Þetta var haft eftir honum þegar hann frétti að dóttir hans, Ragnheiður, hefði eignast barn með Daða Halldórssyni, fyrrum aðstoðarmanni biskups. Í Biskupasögum Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal (1665–1736) segir svo frá þessu (1903:292):
Setti hann fyrst hljóðan um stund, þar til honum hrutu af munni orð Psamnetici Egyptalandskongs í viðlíku, en ekki sama, sorgarstandi: Mala domestica majora sunt lacrymis, eður, að heimilisböl sitt væri stærra en hann gæti grátið það.Jón Espólín, sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, segir frá því í sjöunda bindi árbóka sinna að Torfi Jónsson prófastur, frændi Brynjólfs biskups, hafi sagt honum frá barnsburði Ragnheiðar. Frásögn Jóns er nánast eins og í biskupasögunum að öðru leyti en því að latneska málsháttinn þýðir hann: „heimaböl er meira enn tárum taki“ og nafn egypska faraósins er þar rétt stafsett, Psammetichus, (VII:30). Þetta er elsta dæmið um svipað orðafar og nær því sem flestir þekkja nú og var það tekið upp í málsháttasafn Bjarna Vilhjálmssonar og Óskars Halldórssonar, það er heimilsbölið er þyngra en tárum taki, sjá einnig Jón G. Friðjónsson (2014:237) og Hannes Hólmstein Gissurarson (2010:105) Heimildir:
- Biskupasögur Jóns prófasts Haldórssonar í Hítardal. 1903. I. bindi. Sögufélag, Reykjavík.
- Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson. 1966. Íslenzkir málshættir. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Hannes Hólmsteinn Gissurarson. 2010. Kjarni málsins. Bókafélagið, Reykjavík.
- Jón Espólín. 1821. Íslands Árbækur í sögu-formi. VII. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2014. Orð að sönnu. Íslenskir málshættir og orðskviðir. Forlagið, Reykjavík.
- File:Brynjólfur sveinsson.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.12.2017).
- File:Statue Psamtik II Louvre.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 20.12.2017).