Hvers vegna erum við eina lífveran á jörðinni sem þarf að borga fyrir að búa/lifa hér?Þessi spurning felur í raun í sér margar mikilvægar spurningar og vert er að huga að þeim nánar. Spurningin hvílir á ýmsum forsendum. Þarna er gengið út frá því að við manneskjurnar þurfum að borga fyrir að lifa á jörðinni og því að engar aðrar lífverur þurfi að gera það. Svo má velta fyrir sér hvað felist í borgun, það er að segja hvað það merki að þurfa að borga fyrir eitthvað. Og svo er það auðvitað spurningin um það hvers vegna einhverjar lífverur, til dæmis manneskjur, ættu að borga fyrir að lifa á jörðinni og hvers vegna sumar aðrar ættu ekki að gera það. Oftast þegar við tölum um borgun er átt við greiðslu á formi peninga. Slík borgun er nokkuð sem einkennir líf okkar mannveranna, að minnsta kosti á síðari tímum. Við höfum komið okkur upp kerfi sem gengur út á að við vinnum okkur inn peninga sem við notum svo til að borga með fyrir mat, húsnæði og annað sem við þurfum til að lifa. Þetta kerfi er hluti af mannlegu samfélagi og smíðað af okkur. Með öðrum orðum eru peningar nokkuð sem við manneskjurnar höfum komið okkur upp og ekki er vitað til þess að aðrar lífverur séu með eitthvað sambærilegt. Þannig væri það ekki aðeins ósanngjarnt, heldur beinlínis stórfurðulegt, ef ætlast væri til aðrar lífverur færu að taka þátt í þessu kerfi. Einnig væri óljóst hverjum ætti þá að borga. Varla væri hægt að ætlast til að aðrar lífverur greiddu okkur manneskjunum fyrir afnot sín af gæðum jarðar. Þá mætti eins spyrja hvers vegna við greiðum ekki öðrum lífverum fyrir það sem við notum.
- Monkey with bottle eating lollipop near water free image. (Sótt 26.01.2021).
- Free stock photos - PxHere. (Sótt 21.1.2021).