Er til íslenskt orð sem hefur 8 samhljóða í röð? Fyrir alllöngu datt mér í hug að ef að búið væri til samsett orð sem byrjaði á orðinu tungl og það væri í eignarfalli, þ.e. tungls þá væru þegar komnir fjórir samhljóðar, en það er alls ekki algengt. Ég gerði mér grein fyrir að ef ég ætlaði að fá annað orð sem seinna orð sem byrjaði á fjórum samhljóðum þá þyrfti það líklega að byrja á skrj eða strj. Ég skoðaði íslenska orðabók og fann orðið strjáli sem merkir geisli. Og ef við leggjum að jöfnu orðið sólargeisli og tunglsstrjáli þá hefur verið myndað orð með 8 samhljóða í röð. Getur þetta passað? Er vitað um önnur slík orð?Ef svara á spurningu af þessu tagi af einhverju viti þyrfti að hafa góðan orðagrunn þar sem leita má eftir ákveðnum klösum. Í spurningunni eru nefndirnir klasarnir skrj- og strj-. Stafurinn -j- hefur oft verið nefndur hálfhljóð, það er á milli sérhljóðs og samhljóðs, þannig að deila má um hvort þarna er í raun um fjögur samhljóð að ræða. Vel mætti sér hugsa sér orðið tungls-strjáli en eignarfallssamsetning er þó frekar ólíkleg þarna og stofnsamsetning líklegri, það er tungl-strjáli með sjö samhljóðum. Mér kemur ekkert áttasamhljóðaorð í hug en eins og ég sagði í upphafi er tölvuleit vænlegri til árangurs en orðabókaleit. Ef til vill les einhver svarið sem hefur getu til eða nennir að leita og væri fróðlegt að frétta af niðurstöðunni. Mynd:
Útgáfudagur
21.2.2018
Spyrjandi
Jóna Freysdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Er til íslenskt orð sem hefur 8 samhljóða í röð, ég bjó til orðið tunglsstrjáli?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74461.
Guðrún Kvaran. (2018, 21. febrúar). Er til íslenskt orð sem hefur 8 samhljóða í röð, ég bjó til orðið tunglsstrjáli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74461
Guðrún Kvaran. „Er til íslenskt orð sem hefur 8 samhljóða í röð, ég bjó til orðið tunglsstrjáli?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74461>.