Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig standi á því að í textum sem heyra undir lyfja- og læknisfræði er orðið að upphefja notað sem annað orð yfir að "virka gegn" (t.d. að eitt lyf upphefur áhrif annars lyfs) þegar almenn skýring í orðabókum fyrir orðið upphefja er: 1) "hrósa (e-m/e-u), gera hlut (e-s) sem mestan" eða að 2) "byrja, hefja (e-ð)". http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob?ord=43387&. Ég fann þessa notkun m.a. í skýringum með notkun lyfja í sérlyfjaskrá og í klínískum leiðbeiningum frá Landspítala. Er engin hætta þessu samfara?Notkun sagnarinnar upphefja í merkingunni ‘virka gegn’ þekkist í fleiri greinum en lyfja- og læknisfræði, til dæmis í eðlis- og efnafræði. Merkingin ‘virka gegn’ er ekki gömul í málinu. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–1924:891) er aðeins gefin merkingin ‘ophöje, opløfte’, það er ‘hefja, lyfta upp’. Þessi nýlega merking íslensku sagnarinnar er meðal annarra í dönsku sögninni ophæve og gæti hafa haft áhrif á íslensku notkunina. (Sjá til dæmis merkingu 1.d bevirke at noget ikke længere fungerer í Den danske ordbog á dsl.dk). Í þýsku er einnig til þessi merking í sögninni aufheben auk margra annarra. Ekki er líklegt að hætta sé samfara þessari notkun í sérhæfðari textum. Samhengið ætti að sýna notkunina hverju sinni. Mynd
- Free photo: Headache, Pain, Pills, Medication - Free Image on Pixabay - 1540220. (Sótt 19.01.2018).