Hvaðan kemur orðið "Landmenn", sbr. Landmannalaugar, Landmannaleið? Landmenn reka á Landmannaafrétt, afréttinn þeirra og lauga sig í laugunum sínum. Er þetta danskt tökuorð sbr. landmand/landmænd=bóndi/bændur? Ættum við kannski að tala um "Bændalaugar"?Í Íslenskri orðabók (2002:859) sést að orðið landmaður hefur tvær merkingar: 1. maður sem starfar í landi (ekki á sjó), býr í landi (ekki í eyju); 2. maður sem vinnur að afla (útgerðarstörfum) í landi. Innan flettunnar er einnig nefnt orðið Landmaður. Tekið er fram að um sérnafn sé að ræða og merkingin sögð ‘maður úr Landsveit í Rangárvallasýslu’.

Landmenn í Rangárþingi ytra eru kenndir við Land eða Landsveit. Sama gildir um örnefnið Landmannalaugar sem sjást á myndinni.
- Íslensk orðabók. 2002. 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
- Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Gutenberg, Reykjavík.
- Landmannalaugar, Iceland | Anna & Michal | Flickr. (Sótt 14.12.2017).