Hvaðan er orðatiltækið "að spýta í lófana" komið?Orðasambandið að spýta í lófana er ekki gamalt í málinu og sennilega ekki eldra en frá 20. öld. Einnig er talað um að skyrpa í lófana, samanber eftirfarandi dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
Við skulum skyrpa í lófana sögðu menn, þegar þeir ætluðu að kappróa stuttan spöl.Jón Friðjónsson skýrir sambandið í Mergi málsins (2006:564–565) og telur að líkingin sé dregin af því er menn spýta í lófana til að ná betra taki á handverkfærum (til dæmis skóflu) eða árahlummi. Það á vel við samböndin að spýta eða skyrpa í lófana en síður við elstu gerðina, blása í lófana, frá fyrri hluta 17. aldar í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
vér höfum eptirsetið, [ [...]] og höfum mátt blása í lófana.Þarna virðist fremur átt við að hlýja köldum og stirðum fingrum með því að blása heitum andardrætti í lófana til þess til dæmis að auðveldara sé að taka um verkfæri. Í þýsku er til orðasambandið in die Hände spucken (spucken = spýta) notað á sama eða svipaðan hátt og þau íslensku. Gera verður ráð fyrir að þarna séu tengsl á milli. Mynd:
- File:Rowing GBR 2012 lympics.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 31.10.2017).