Í hvernig gildrur voru/eru álar veiddir og hvar er hægt að nálgast teikningar af slíku veiðarfæri?Í Bændablaðinu árið 2004 er að finna grein eftir Jón Gunnar Schram fiskeldisfræðing um álaveiðar í Skaftárhreppi. Jón Gunnar lýsir þar meðal annars gildrum sem notaðar voru til að veiða ála. Þær voru 8-10 metra langar og í þeim voru tveir endapokar og leiðari á milli þeirra. Í greininni segir enn fremur:
Möskvastærð í enda gildranna var 11 mm. Állinn kemur syndandi að gildrunni með botni en syndir ekki yfir gildruna heldur meðfram henni og lendir þá í endapokanum. Möguleiki er að vera með agn í gildrunum, t.d. saltfiskbút, en það var ekki gert í þessu verkefni.Með greininni fylgja tvær myndir sem sýna álagildrurnar. Álagildrur af ýmsu tagi er einnig hægt að skoða með því að setja leitarorðin 'eel trap' inn í myndaleit Google. Sumar gildrurnar þar líkjast þeirri sem lýst er í grein Jóns Gunnars. Álar (Anguilla anguilla) hefja lífsferil sinn í Þanghafinu sem er í suðvestanverðu Norður-Atlantshafi en þangað fara fullorðnir álar til að hrygna. Seiðin berast svo til Evrópu með Golfstraumnum. Það ferðalag tekur um 3 ár og stærð seiðanna er þá um 6-8 cm. Seiðin ganga þá upp í ferksvatn þar sem állinn lifir mestan aldur sinn og nærist og vex. Þegar állinn er orðinn fullþroska gengur hann til sjávar að hausti til og heldur í Þanghafið til að hrygna. Álar anda með tálknum í vatni en geta lokað tálknum á landi og andað með húðinni. Þekkt er að álar hafi farið 8 km á milli vatna í blautu grasi. Heimild og myndir:
- Bændablaðið, 10. árgangur 2004, 17. tölublað - Timarit.is. (Sótt 9.08.2017).
- File:Ålegård.gif - Wikimedia Commons. (Sótt 7.09.2017).