Drekka fuglar á sundi eða fara þeir alltaf upp úr og beina goggnum niður af tjarnarbakkanum ef þá þyrstir?Fuglar þurfa að drekka vatn eins og önnur dýr. Þeir hafa hvorki varir né kinnar eins og spendýr og þurfa því að drekka á nokkuð ólíkan hátt. Sennilega drekka flestar tegundir fugla með því að fylla gogginn af vatni, eða lepja það upp í gogginn með aðstoð tungunnar, reigja svo höfuðið aftur og nota þyngdaraflið til þess að láta vatnið renna niður í meltingarveginn. Slíkt atferli má sjá meðal annars hjá mörgum af algengustu fuglategundunum í okkar nánasta umhverfi. Margir litlir fuglar geta oft svalað vökvaþörfinni með því að ná upp í sig daggardropum af laufblöðum. Annars drekka fuglar það vatn sem þeir komast í. Sumar tegundir, til dæmis svölur, taka upp vatn þegar þær fljúga yfir tjarnir, vötn og ár, þær drekka því eiginlega á flugi. Dúfur eru um margt sérstakir fuglar. Það kemur meðal annars fram í vatnsdrykkju þeirra en þær eru meðal sárafárra hópa fugla sem geta sogið upp vatn og þurfa því ekki að halla höfðinu aftur til að það renni niður. Mynd:
- Kensington Gardens and Hyde Park birds. (Sótt 13.10.2017).
- Free photo: Animal, Bird, Dove, Drink, Water - Free Image on Pixabay - 2369628. (Sótt 13.10.2017).