Hvað getið þið sagt mér um blómið gleym-mér-ei?Latneska heiti plöntunnar gleym-mér-ei er Myosotis arvensis. Á tungumálum nágranna okkar er heitið ekki ósvipað því íslenska því á ensku kallast plantan field forget-me-not, á dönsku er heitið mark-forglemmigej og Acker-Vergißmeinnicht á þýsku. Á vefnum Flóra Íslands (floraislands.is) er að finna margskonar fróðleik um plöntur í náttúru Íslands. Það segir um gleym-mér-ei:
[Gleym-mér-ei] er miðlungi stór jurt, víðast algeng á láglendi, en vantar þó á nokkru svæði á Norðausturlandi, og á Hornströndum. Hún fer lítið upp til fjalla, aðeins á örfáum stöðum ofan 500 m, hæst skráð við Laugafell í 720 m við jarðhita. Gleym-mér-eiin hefur krókhár á bikarblöðunum, og festist því auðveldlega við bæði föt og eins ull á kindum, og dreifist líklega nokkuð með þeim. Blóm gleym-mér-eiar eru 4-5 mm í þvermál. Krónufliparnir eru snubbóttir, heiðbláir, en gulir eða hvítleitir innst við blómginið. Óþroskaðir blómknappar eru rauðleitir og í uppvafinni hálfkvísl áður en þeir springa út; hún réttir síðan úr sér og eftir blómgun virðast leggjaðir bikararnir standa í klasa niður eftir stönglinum. Bikarinn er fimmtenntur, klofinn niður fyrir miðju, alsettur hvítum krókhárum. Fræflar eru 5, innilokaðir í krónupípunni. Aldinleggirnir eru helmingi lengri en bikarinn, fjögur gljáandi dökkbrún deilialdin eru í botni bikaranna. Blöðin eru stakstæð, lensulaga en frambreið (5-7 mm), alsett hvítum hárum eins og stöngullinn.Heimildir og mynd:
- málið.is. (Skoðað 1. 8. 2018).
- Flóra Íslands. (Skoðað 1. 8. 2018).
- Mynd: Myosotis arvensis 002.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 1. 8. 2018).