Það stendur í BÍN að blóðmör sé karlkynsorð. Ég er ættaður frá Vestfjörðum og hef alltaf notað þetta sem kvenkynsorð. Er bæði notað, eða er bara eitt sem er rétt.Ég vann í tæpa fimm áratugi á Orðabók Háskólans, síðar orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Sú reynsla kenndi mér að segja aldrei að eitthvað sé ekki til þegar rætt er um íslenskan orðaforða. Talað er um staðbundinn orðaforða þegar ákveðin notkun tengist ákveðnum landshluta, sýslu eða sveit. Um það eru mýmörg dæmi. Oft hefur þessi staðbundni orðaforði ekki komist í orðabækur. Á ég þá við orðin sjálf, kyn þeirra og beygingu. Orðið blóðmör er, hvar sem ég leita, sagt karlkyns hvort heldur er í fornmálsorðabókum, nútímamálsorðabókum eða Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar frá 1989. Ég fletti einnig upp í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans og fann aðeins karlkynsdæmi. Ef þú og nærumhverfi þitt hefur vanist orðinu blóðmör í kvenkyni, og þá væntanlega einnig orðinu mör, er engin ástæða til að breyta því. Slík notkun félli þá undir staðbundinn orðaforða. Mynd:
- Þorramatur - Slátur og blóðmör | An Icelandic Tradition | Flickr. (Sótt 30.10.2017).