Ég var að lesa um "þar hitti skrattinn ömmu sína" en ég hef alltaf heyrt það notað í merkingunni að hitta ofjarl sinn, einhver klárari, séðari, einhvern sem getur rassskell mann. Er það rétt? Mig langar líka að fá að vita um "til skamms tíma". Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði "í stuttan tíma" án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi "var lengi en hætti fyrir stuttu", sem sagt "var kennari til skamms tíma" þýðir "var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan". Vona að þið getið skýrt þennan merkingar mun sem ég hef rekið mig á.Orðatiltækið þar hitti skrattinn ömmu sína er notað þegar tveir óbilgjarnir takast á, þegar harðskeyttur maður hittir annan verri eða jafningja sinn. Annað hliðstætt orðatiltæki er þar hitti fjandinn móður sína (GJ 394). Jón G. Friðjónsson bendir á í Mergi málsins að orðatiltækið eigi sér erlendar rætur (2006:771). Þar komi skrattinn og amma hans eða móðir oft við sögu og séu verri en hann sjálfur. Síðari hluti spurningarinnar er um merkingu sambandsins til skamms tíma. Hún er ‘fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu’ samanber dæmi í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans:
alt til skams tíma stód þar hús nokkurt. hefir það verið haft fyrir satt alt til skamms tíma.Sjá einnig Íslenska orðabók (2002:1303) þar sem gefnar eru merkingarnar ‘stuttan tíma; þar til nú fyrir stuttu’. Heimildir:
- GJ: Safn af íslenzkum orðskviðum ... samanlesið og í stafrofsröð sett af Guðmundi Jónssyni. Kaupmannahöfn 1830.
- Íslensk orðabók. 2002. 3. útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga og notkun. Mál og menning, Reykjavík.
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
- The Devil's Advocate (1997 film) - Wikipedia. (Sótt 29.11.2017).