Mjög sérstætt náttúrufyrirbrigði. Ferskt vatn flýtur ofan á söltu og verkar sem gler í gróðurhúsi á neðri lög. Mikið og fjölbreytt lífríki.Ólafsfjarðarvatn var fyrr á árum og öldum mikil viðbót við matarforðabúr Ólafsfirðinga og bjargaði áreiðanlega mörgum frá hungri. Silungsveiði er með ágætum í vatninu og sjófiskar svo sem þorskur, ufsi, koli, síld og fleiri tegundir hafa veiðst þar öldum saman. Vegna þessa var Ólafsfjarðarvatn umtalað mjög og svo víða barst frægð þess að árið 1891 sendu Frakkar herskip til Ólafsfjarðar með hóp franskra vísindamanna sem rannsökuðu vatnið og var skrifað um niðurstöðurnar í virt franskt vísindarit. Getið er um maurungsveiði í vatninu og það talið til hlunninda, en maurungur var sá þorskur nefndur sem veiddist í vatninu. Þá er getið um síldargöngur miklar á stundum. Frekar hefur dregið úr veiði sjófiska hin síðari ár. Bændur hafa netalagnir í vatninu á sumrin og veiðist oft nokkuð vel. Mynd:
- Galleries | Mats Wibe Lund. (Sótt 22. 5. 2018).
Uppistaðan í þessum texta er af vef Fjallabyggðar og er svarið birt með góðfúslegu leyfi. Efnið hefur verið lítillega aðlagað Vísindavefnum.