Hvað eru staraungar lengi í hreiðri? Er að fara klæða utan um húsið mitt og það er starahreiður í því, þarf helst að losna við það í gær!Starinn (Sturnus vulgaris) byrjar venjulega að verpa um mánaðamótin apríl/maí og tekur útungun eggja um 13 daga. Þá tekur við stíf vinna foreldranna við fæðuöflun enda stækka ungarnir hratt og verða sífellt þurftarfrekari. Hægt er að sjá á útliti unganna hve gamlir þeir eru. Þeir koma naktir og blindir í heiminn en sjö daga gamlir eru þeir komnir með dún. Sjónina fá þeir venjulega á níunda degi. Ungarnir dvelja í hreiðri í 21-23 daga. Frá varpi og þar til ungarnir yfirgefa hreiðrið líða því yfirleitt um það bil 5 vikur. Miðað við það má ætla að við varp í kringum 1. maí yfirgefi ungarnir hreiðrið fyrstu dagana í júní. Ef varpið er seinna, til dæmis um miðjan maí, má gera ráð fyrir að ungarnir yfirgefi hreiðrið í kringum 20. júní. Eftir að unginn yfirgefur hreiðrið er hann með móbrúnleitan fjaðurham, nokkuð frábrugðinn foreldrunum. Unginn fær hinn svartgrænglansandi ham nokkrum mánuðum síðar. Þess má geta að starar sem lifa sunnan við 48°N verpa oft tvisvar á sumri og jafnvel þrisvar syðst á útbreiðslusvæðinu. Hér á landi verpa þeir aðeins einu sinni. Mynd:
- Sturnus vulgaris vulgaris 2.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 31. 5. 2017).