Hvort er réttara að tala um puru eða pöru, sérstaklega í samhenginu purusteik eða pörusteik?Nafnorðið para hefur fleiri en eina merkingu. Það getur merkt ‘flus, hýði, ysta laga á kjöti eða fiski’ og fleira. Það þekkist í málinu allt frá 17. öld. Aukaföllin eru pöru (u-hljóðvarp). Pura hins vegar er í staðbundnu máli notað um ham á fugli. Í Íslenskri orðsifjabók er það talið sama orð og para, u-myndirnar komnar frá aukaföllunum pöru sem í staðbundnum framburði hljómar puru (1989:730). Orðið pörusteik virðist ekki mjög gamalt í málinu. Elsta dæmi á timarit.is er úr Alþýðublaðinu frá 1996 en eftir 2000 fer auglýsingum fjölgandi. Álíka gamalt er orðið purusteik og kemur það heldur oftar fyrir í matarauglýsingum. Pörusteik er samkvæmt uppruna orðsins para réttara en báðar myndirnar hafa unnið sér hefð og því unnt að mæla með báðum. Heimild:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Timarit.is. (Skoðað 12.06.2017).
- Pork | Pork belly/ribs with fabulous crackling. | henry… | Flickr. Myndrétthafi er henry…. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 12.06.2017).