Hvað er barómetermælir og hvernig les maður úr þessum tveim vísum sem er í mælinum og af hverju heitir þetta barómeter?Loftvog er samheiti yfir tæki sem notuð eru til þess að mæla þrýsting loftsins. Neðstu loftlög hvíla undir þeim sem ofar liggja, hin efri þjappa hinum neðri saman eins og þegar gormi er þrýst saman. Eftir því sem ofar dregur í andrúmsloftinu minnkar þrýstingurinn. Hann ræðst (nokkurn veginn) af því loftmagni sem er fyrir ofan mælistaðinn. Loftþrýstingur er nú oftast mældur í einingunni hPa (hektóPascal). Meðalþrýstingur við sjávarmál á jörðinni er 1013,25 hPa. Í um 5,6 km hæð er hann orðinn um 500 hPa. Helmingur andrúmsloftsins er ofan þessarar hæðar en helmingurinn undir. Þegar komið er upp í um 10 km hæð er alls ekki komið að endimörkum andrúmsloftsins heldur hefur þrýstingur þar aftur helmingast og er ekki mjög fjarri 250 hPa. Notast má við þá minnisreglu að þrýstingurinn helmingist við hverja 5 km hækkun þó ekki sé hún alveg nákvæm. Í 15 km hæð er hann nálægt því að vera helmingur þrýstings í 10 km eða um 120 hPa og svo framvegis. Þetta sýnir ágætlega að sami massi af lofti er misfyrirferðarmikill eftir því í hvaða hæð hann er. Blaðra sem fyllt er lofti við sjávarmál og er síðan flutt upp á fjallatind þenst út, loftið verður fyrirferðarmeira, það lagar sig að þrýstingi umhverfisins. Um þær gerðir loftvoga sem notaðar eru á mönnuðum veðurstöðvum mál lesa í fróðleiksgrein á vef Veðurstofunnar, Loftvogir. Þar er ítarlegast sagt frá kvikasilfursloftvogum. Einnig eru til ónákvæmar loftvogir sem notast við aðra vökva heldur en kvikasilfur, til dæmis vatn. Sú gerð sem almenningur hefur mest kynni af nefnist oftast á íslensku dósarloftvog eða fjaðurloftvog. Erlent nafn hennar er „aneroid barometer“. Bókstafleg merking orðsins „aneroid“ er „án vökva“, þá með skírskotun til þess að ekkert kvikasilfur eða annar vökvi sé til staðar. Venjulega eru nokkrar örþunnar þéttar „dósir“, fullar af lofti, festar saman. Þær þenjast síðan út eða þjappast saman eftir því hvernig þrýstingur loftsins utan við þær breytist. Við dósasamstæðuna er festur armur sem bendir á kvarða þar sem hægt er að sjá hverjar rúmmálsbreytingar dósanna eru. Auðvitað væri hægt að nota blöðrur eða eitthvað slíkt í stað málmdósa (og hefur verið gert), en ending slíks búnaðar er sáralítil og mjög erfitt er að kvarða hann. Góð fjaðurloftvog endist hins vegar áratugum saman og jafnvel lengur sé vel með hana farið.
- Structure of the Atmosphere | North Carolina Climate Office. (Sótt 13.3.2019).
- Ariadna Choptiany: analogue methods of measuring pressure. (Sótt 7.3.2019).
- DHgate.Com. (Sótt 8.3.2019).