Hver er uppruni orðtækisins rúsínan í pylsuendanum? Hefur það einhvern tíma verið til siðs að setja rúsínu í pylsur?Í söfnum Orðabókar Háskólans eru dæmi um orðasambandið rúsínan í pylsuendanum úr nútímamáli. Eldri dæmi eru þó til um rúsínu í endanum um eitthvað gott, eitthvað sem er tilhlökkunarefni. Til dæmis var talað um flokk af kvæðum eftir Matthías Jochumsson sem „rúsínuna í endanum“ í blaðagrein frá árinu 1899 og virðist sú notkun hafa verið allútbreidd í lok 19. aldar. Um rúsínuna í pylsuendanum á Orðabók Háskólans elst dæmi frá 1938. Orðasambandið á rætur að rekja til dönsku, rosinen i pølseenden. Í Danmörku mun vera gamall siður að setja rúsínu eða nokkrar rúsínur í endann á blóðpylsu þegar troðið er í hana. Orðasambandið kemur fyrir í kvæði eftir Christian Winther frá 1828 en um það bil hundrað árum eldri er heimild um „þrjár rúsínur í pylsuendanum“ (tre rosiner i en pølseende).
Útgáfudagur
8.8.2000
Spyrjandi
Linda Andrésdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðtækisins 'rúsínan í pylsuendanum'?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=740.
Guðrún Kvaran. (2000, 8. ágúst). Hver er uppruni orðtækisins 'rúsínan í pylsuendanum'? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=740
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðtækisins 'rúsínan í pylsuendanum'?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=740>.