Hvernig eru nýyrði tekin inn í tungumálið. Þurfa þau að vera í notkun hjá ákveðið mörgum eða gæti ég bent á betra orð. Orðið takeaway fer ekki vel í mig svo ég nota orðið brottfararbolli eða brottfararmál yfir ílát sem notað er fyrir kaffi sem þú tekur með þér.Íslensk tunga er mjög frjó og ný orð bætast sífellt við málið. Það eru ekki alltaf sérfræðingar sem mynda ný orð, þau geta einnig verið sjálfsprottin úti í þjóðfélaginu. Margir hafa reynt að finna gott íslenskt orð fyrir takeaway. Heyrst hafa nokkrar tillögur um nýyrði fyrir takeaway í merkingunni kaffibolli sem maður tekur með sér út af kaffihúsi, svo sem brottfararmál og brottfararbolli og svo má einnig nefna slanguryrðin götumál og útfararkaffi þar sem upphafleg merking er sveigð til og hártoguð. Fleiri tillögur hafa komið fram um takeaway fyrir mat sem er tekinn út af veitingastað. Í nýyrðadagbók hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Íslenskri málstöð) var nýyrðatillagan burtmatur skráð árið 1991 og seinna sama ár kom fram tillagan meðtökumatur. Hvorugt þessara orða náði að festast í málinu. Árið 2014 ákvað fyrirtækið Aha.is að efna til nýyrðasamkeppni um íslenskt orð í staðinn fyrir takeaway. Þátttakan var mjög mikil, alls bárust hátt í 2000 tillögur, þar af um 1100 ólík orð að því er fram kom í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Dómnefnd keppninnar komst að þeirri niðurstöðu að útréttur væri besta orðið yfir takeaway. Dómnefndinni þótti orðið lipurt og auðvelt í notkun auk þess sem orðið réttur getur bæði vísað í nafnorðið réttur (það er ákveðinn matur) sem og sagnorðið að rétta sem þótt mjög viðeigandi í því samhengi að maturinn er réttur út frá veitingastaðnum. Enda þótt orð sigri í nýyrðasamkeppni er það engin trygging fyrir því að það nái að festa rætur í málinu og sigurorðið útréttur virðist ekki vera mikið notað. Allir geta reynt að mynda nýyrði en enginn einn ákveður hvort orð verði tekin inn í málið. Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar geta haft áhrif á útbreiðslu nýyrða en framtíðin ein getur leitt það í ljós hvort þau festist í málinu. Heimildir:
- Götumál. Í Slangurorðabók. Sótt 15. september 2017 af http://slangur.snara.is/?s=g%C3%B6tum%C3%A1l&btn=Leita&action=search&b=x#.
- Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982. Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Svart á hvítu.
- Smári Valtýr Sæbjörnsson. (2014, 12. október). Úrslit úr nýyrðasamkeppni um gott íslenskt orð yfir “take away”. Get ég fengið útréttan útrétt? Veitingageirinn. Sótt 15. september 2017 af https://www.veitingageirinn.is/urslit-ur-nyyrdasamkeppni-um-gott-islenskt-ord-yfir-take-away-get-eg-fengid-utrettan-utrett/.
- Free Images : coffee, cup, bottle, blue, yellow, spectacles, product, takeaway, sunglasses, glasses, vision care 6016x4000 - - 1283797 - Free stock photos - PxHere. (Sótt 6.10.2017).
- Free Images : dish, meal, cuisine, noodle, takeaway, street food, tongs, sense 5184x3456 - - 1292120 - Free stock photos - PxHere. (Sótt 6.10.2017).