Hvað þýðir orðið kviklæst? Samanber: Hví er hurðin kviklæst?Lýsingarorðið kvikur hefur fleiri en eina merkingu, til dæmis ‘lifandi, fjörlegur, léttur í hreyfingum’. Þaðan er fenginn fyrri liðurinn kvik- í kviklæstur. Orðið virðist ekki mikið notað á prenti en sjálfri finnst mér ég hafa þekkt það alla ævi. Aðeins eitt dæmi fannst í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá 19. öld, orðið kemur átta sinnum fyrir í blöðum og tímaritum á árunum 1901–1981 samkvæmt timarit.is en ekkert kom fram á málið.is á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Kviklæstur er einkum notað um lása af ýmsu tagi sem ekki er unnt að læsa með lykli. Lykillinn nær ekki taki þegar reynt er að snúa honum til að opna eða loka, hann er kvikur í skránni. Í Alþýðublaðinu frá 1936 segir til dæmis frá innbroti:
Tvær dyr eru á herberginu, og var smekklásinn fyrir annari mjög kviklæstur. Hafði þjófnum tekist að sprengja hann sundur.Í Morgunblaðinu frá 1981 er annað dæmi:
Skápurinn hefur að öllum líkindum verið kviklæstur, því þjófunum hafði tekizt að opna hann án þess að á honum sæist.Heimildir:
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. (Skoðað 13.06.2017).
- Timarit.is. (Skoðað 13.06.2017).
- Málið. (Skoðað 13.06.2017).
- door 29 | A weathered door in Rockport MA | Steven Bevacqua | Flickr. Myndrétthafi er Steven Bevacqua. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 13.06.2017).