Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað getið þið sagt mér um vaquita-hvalinn? Hvers vegna eru þeir í hættu?
Dverghnísa (Phocoena sinus, vaquita á ensku, komið úr spænsku og merkir lítil kýr) er ein fjögurra tegunda núlifandi hnísa. Þetta er afar sjaldgæf tegund sem er einlend nyrst í Kaliforníuflóa. Tegundin nýtur nú þess vafasama heiðurs að vera sjaldgæfasti hvalur í heimi eftir að mandarínhöfrungurinn (Lipotes vexillifer) varð aldauða árið 2006. Dverghnísan var sett í hæsta hættuflokk, það er tegund í mjög mikilli útrýmingarhættu (e. critically endangered) árið 1996 en þá var stofninn metinn 600 einstaklingar. Árið 2014 var stofninn þó kominn undir 100 einstaklinga og seint á árinu 2016 var stofninn talinn vera um 30 dýr. Tegundin er því í afar mikilli útrýmingarhættu og mjög líklegt að hún deyi út á næstu árum.
Dverghnísum hefur fækkað mjög mikið á síðustu árum og er veruleg hætta á að tegundin deyi út á næstu árum.
Aðalskýringin á því hversu mjög dverghnísum hefur fækkað er sú að þær flækjast í netum fiskimanna og drukkna, en talið er að um eða yfir 40 dverghnísur drepist árlega á þennan hátt. Veiðar á ýmsum tegundum eru stundaðar á svæðum þar sem dverghnísuna er að finna en það sem veldur sérstökum áhyggjum eru ólöglegar netaveiðar á fiski sem nefnist totoaba (Totoaba macdonaldi). Þessi fiskur er sjálfur í mikilli útrýmingarhættu og veiðar á honum eru bannaðar en engu að síður er hann eftirsóttur og afurðir hans meðal annars notaðar í kínversk náttúrulyf. Þessar veiðar eru taldar stór áhrifaþáttur í slæmri stöðu hnísunnar.
Þótt netaveiðar séu helsta ógnin þá er talið að breytingar í umhverfinu eigi líka sinn þátt í hnignun hnísustofnsins. Stíflur í Colorado-ánni í Bandaríkjunum hafa dregið úr magni þess ferskvatns sem berst í Kaliforníuflóa og hefur það áhrif á fæðuframboð og lífsskilyrði þeirra tegunda sem þar þrífast. Einnig er talið að eiturefni frá landbúnaði sem berast til sjávar geti haft skaðleg áhrif á hnísurnar.
Dverghnísa (Phocoena sinus).
Mexíkósk stjórnvöld hafa haft forgöngu í verndun dverghnísunnar með stuðningi frá Bandaríkjunum og Kanada undir svokallaðri CIRVA-áætlun (International Committee for the Recovery of the Vaquita). Áætlunin byggir meðal annars á því að draga úr notkun neta á svæðum þar sem hnísan finnst og hanna ný net sem hnísunum hættir ekki eins til að flækjast í. Þá hefur hluti Kaliforníuflóa og óshólmar Colorado-fljótsins verið skilgreint sem verndarsvæði þar sem lagt er algert bann við fiskveiðum. Náttúruverndarsamtök hafa þrýst mjög á stjórnvöld í Mexíkó að stækka friðlandið þannig að innan þess verði allt þekkt útbreiðslusvæði dverghnísunnar. Óvíst er þó um árangur, enda hefur leiðin aðeins legið niður á við þrátt fyrir að tegundin hafi verið skilgreind í mjög mikilli útrýmingarhættu í 20 ár.
Dverghnísan er smávöxnust allra hvala. Hún er þéttvaxin og formfræðilega sver hún sig í ætt við aðrar hnísutegundir. Helstu einkenni tegundarinnar eru dökkir hringir umhverfis augun. Bakið er dökkgrátt en liturinn fölnar á hliðum og endar í hvítum kvið. Kýrnar verða að meðaltali um 140 cm á lengd en tarfarnir eru aðeins minni, að meðaltali um 135 cm langir.
Talið er að hnísur hafi einangrast í Kaliforníuflóa á jökultíma og þróast þar í þessa smávöxnu og sérstæðu tegund. Líkt og aðrar hnísur sjást kaliforníuhnísur yfirleitt einar á ferð, í mesta lagi 2-3 dýr saman. Sjávarlíffræðingar vissu ekkert um tilvist hnísunnar fyrr en á 6. áratug síðustu aldar. Hins vegar hafa mexíkóskir fiskimenn lengi þekkt vel til þessa smávaxna hvals og talið hann búa yfir yfirnáttúrulegum kröftum.
Dverghnísan er minnst allra hnísa, að meðaltali ekki lengri en 140 cm.
Hnísan er fiskiæta og hafa fundist 17 tegundir fiska í maga hennar. Einnig étur hún krabbadýr en það virðist þó frekar vera undantekning en regla. Að manninum undanskildum stendur hnísunni aðeins ógn af hákörlum á svæðinu, þótt hnísan sé ekki stór hluti fæðu þeirra þá hefur afrán hákarla áhrif á stofnstærðina þegar hún er orðin svona lítil. Ef dverghnísan hverfur alveg úr vistkerfi Norður-Kaliforníuflóa mun það væntanlega raska fæðuvef einhverra tegunda.
Heimildir og myndir:
Jón Már Halldórsson. „Af hverju er dverghnísan í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73680.
Jón Már Halldórsson. (2017, 27. apríl). Af hverju er dverghnísan í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73680
Jón Már Halldórsson. „Af hverju er dverghnísan í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73680>.