Hvernig myndaðist Ha Long Bay, eitt af sjö undrum veraldar? (jarðfræðileg skýring)Á Ha Long Bay-svæðinu í norðaustur Víetnam eru um 1600 eyjar sem flestar eru óbyggðar og ósnortnar. Svæðið þykir sérstakt bæði vegna landslags og líffræðilegs fjölbreytileika og er á heimsminjaskrá UNESCO. Í stuttu máli er Ha Long Bay „karst“-landslag. Kalksteinn sem myndar Ha Long Bay-eyjarnar er um 300 milljón ára gamall og allt að 1000 m þykkur. Þarna hefur land ýmist risið eða sigið gegnum tíðina. Þegar það er ofansjávar grefur kolsúrt rennandi vatn glufur og hella í bergið sem með tímanum falla saman þannig að yfirborðið einkennist af strýtum með gjótum og gjám á milli. Þetta kallast „karst“-landslag en um myndun þess má lesa í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig verða hellar til? Þegar land sígur aftur fyllast holrýmin af sjó, fiskum, skeljum og öðrum lífverum að leik, og kalksteinn tekur aftur að myndast. Í Ha Long Bay er land „hálfsokkið“ (eða hálf-risið), strýturnar standa upp úr sjónum en lægðirnar eru neðansjávar. Þannig hefur það verið alllengi, því sjávarrof hefur náð að sverfa strýturnar að neðan þannig að þær líkjast Staupasteini í Hvalfirði. Fari svo fram um aldir, munu þær hrynja hver af annarri við það að grundvöllurinn eyðist; lyftist land hins vegar þekst landið aftur hitabeltisskógi og sýrur leysa upp kalkið, en sökkvi landið frekar fer aftur að bætast við kalksteininn. Myndir:
- Vietnam Halong Bay Nature · Free photo on Pixabay. (Sótt 29. 6. 2018).
- Sung Sot Cave, Ha Long Bay, northern Vietnam (28) | Richard Mortel | Flickr. (Sótt 29. 6. 2018).