Hver fann upp spilastokkinn og hvaða spil var fyrst spilað?Talið er að spilin hafi verið fundin upp í Kína á tímum Tangveldisins á 9. öld. Líklega hafa þau komið fram í kjölfarið á því að menn hófu að prenta á viðarkubba. Fyrsta spilið var kallað „Laufaleikur“ og var það spilað að minnsta kosti frá árinu 868. Ekki er þó vitað út á hvað leikurinn gekk. Enn fremur má nefna að erfitt hefur reynst að greina á milli hvort um eiginleg spil hafi verið að ræða eins og við þekkjum þau í dag eða dómínókubba. Á 11. öld dreifðust spilin um Asíu og voru komin alla leið til Egyptalands þaðan sem þau bárust til Evrópu seint á 14. öld, líklega á 8. áratug þeirrar aldar. Þrátt fyrir að Kínverjar hafi upphaflega notað prentun til að búa til sín spil eða dómínókubba, voru spilin á þessum tíma yfirleitt handmáluð. Þau voru þess vegna dýr og einungis á færi ríkra manna að eignast þau. Spilastokkurinn sem barst frá Egyptalandi til Suður-Evrópu á 14. öld hafði fjórar sortir og innihélt líklega 52 spil, alveg eins og nútímaspilastokkur. Sortirnar voru þó öðruvísi, það er pólóprik, mynt, sverð og bikar. Pólóleikurinn var hins vegar lítt þekktur í Evrópu og því var pólóprikinu fljótlega skipt út fyrir kylfu. Enn fremur voru þrjú mannspil og tíu venjuleg spil. Seint á 15. öld var svo byrjað að nota ásinn sem hæsta spil í sumum spilum. Snemma á 15. öld var hafið að prenta spil á við í Þýskalandi sem gerði það að verkum að þó voru ekki jafndýr í framleiðslu og áður. Undir lok 15. aldar lækkaði framleiðslukostnaðurinn enn frekar er skapalón komu til sögunnar í Frakklandi. Um það leyti breyttust sortirnar og urðu að þeim sem við þekkjum í dag: spaði, hjarta, tígull, lauf. Spaði og lauf eru svört en hjarta og tígul rauð. Talið er að spilað hafi verið upp á peninga ekki löngu eftir að spilin komu fyrst fram. Þetta varð til þess að bæði í Mið-Austurlöndum og Evrópu reyndu yfirvöld að banna fjárhættuspil. Seinna meir tóku yfirvöld hins vegar til annarra ráða, til dæmis að setja skatt á framleiðendur spila og einokun á fjárhættuspil. Spil voru orðin þekkt á Íslandi um 1750 en hafa líklega borist til landsins snemma á 16. öld eða jafnvel fyrr. Heimildir:
- Playing card - Wikipedia. (Skoðað 22.06.2017).
- playing cards | Names, Games, & History | Britannica.com. (Skoðað 22.06.2017).
- Who invented playing cards? - Quatr.us. (Skoðað 22.06.2017).
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 2011 (vefútgáfa).
- Fyrsta mynd: Playing card - Wikipedia. (Sótt 22.06.2017).
- Önnur mynd: Playing card - Wikipedia. (Sótt 22.06.2017).
- Þriðja mynd: Playing card - Wikipedia. Myndrétthafi er !KrzysiekBu!. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 22.06.2017).
Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2017.