Í norðausturhluta Afríku, sunnan Sahara, eru töluð nílo-sahara mál. Þau eru fyrst og fremst bundin við tvö svæði sem liggja að efri hluta fljótanna Tsjarí og Nílar, frá Egyptalandi í norðri til Tansaníu í suðri og frá Eþíópíu í austri til Malí í vestri. Tungumál nílo-sahara málaættarinnar eru talin vera á bilinu 100-200 og þeir sem tala þau 17- 34 milljónir, allt eftir heimildum. Stærsta málaættin í Afríku kallast ýmist níger-kordófan eða níger-kongó. Landfræðilega nær málsvæði þessarar ættar frá Senegal í vestri til Keníu í austri og allt suður til Suður-Afríku. Þessari málaætt er gjarnan skipt í tvær megingreinar, annars vegar níger-kongó mál og hins vegar kordófanísk mál. Til níger-kongó mála heyra bantú mál en það eru ríkjandi tungumál um nær allan suðurhluta Afríku og voru þau lengi vel talin sérstök málaætt. Eins og með aðrar málaættir í Afríku er fjöldi tungumála sem teljast til níger-kordófan ættarinnar nokkuð óljós en gjarnan er nefnt að þau séu einhvers staðar á bilinu 1000-1500 talsins og töluð af 100 - 350 milljónum. Fjórða málaættin í Afríku er khoisan-málaættin og er hún minnsta ættin, með eitthvað í kringum 50 tungumál. Khoisan-mál eru fyrst og fremst töluð í suðvesturhluta Afríku, á svæðinu í kringum Kalahari-eyðimörkina. Fá khoisan mál eiga sér fleiri en 1000 mælendur, en nama í Namibíu er þó talað af um 250.000 manns. Auk þessara fjögurra málaætta eru fleiri mál töluð í Afríku. Á eyjunni Madagaskar er útbreiddasta málið svokallað malagasy og tilheyrir það ástrónesíku málaættinni, en mál af þeirri ætt eru töluð víða í heiminum, allt frá Madagaskar í vestri til Páskaeyja í austri. Afríkanska, sem er útbreitt í syðsta hluta Afríku og ásamt ensku opinbert tungumál í Suður-Afríku, er hollenskt að uppruna. Evrópsk tungumál eru opinber mál í mörgum Afríkuríkjum og eru það leifar frá nýlendutímanum. Önnur arfleifð nýlendutímans eru hin mörgu blendingsmál (kreólamál, pidginmál) sem töluð eru í álfunni. Hér hefur lítið verið talað um einstök tungumál í Afríku, enda ekki hægt í miðli eins og Vísindavefnum að telja upp og fjalla um öll þau 2000 mál sem þar eru töluð. Þeim sem hafa áhuga á tilteknum málum eða vilja vita hvaða mál eru töluð í tilteknu landi, er bent á að nota heimildirnar hér fyrir neðan til að leiða sig áfram að einstökum tungumálum. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um tungumál, til dæmis:
- Hversu mörg tungumál eru notuð í heiminum í dag? eftir Diane Nelson
- Hvers vegna er ekki bara eitt tungumál í heiminum? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvaða tungumál er mest talað í heiminum í dag? eftir Guðrúnu Kvaran
- Í hvaða landi eru til flest tungumál og hvert er mest talaða tungumál í heiminum? eftir Ulriku Andersson
- Baldur Ragnarsson. Tungumál veraldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan. 1999.
- Ethnologue. Skoðað 17. 4. 2008.
- Languages of the World. Skoðað 17. 4. 2008.
- Languages of Africa á Wikipedia. Skoðað 17. 4. 2008.
- Classification of African Languages á African Studies Center - University of Pennsylvania. Skoðað 17. 4. 2008.
- Kort: Languages of Africa á Wikipedia. Sótt 17. 4. 2008.