Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hundurinn er talinn með elstu húsdýrum mannsins og ræktuð hafa verið mörg hundakyn eftir þeim notum sem menn hafa viljað hafa af hundunum.
Hundar eru náskyldir úlfum og menn hafa notfært sér eiginleika úlfsins við ræktunina. Í fjárhundum hefur áherslan í ræktuninni verið á þann eiginleika eða atferli úlfsins að beina hjörð bráðardýra í ákveðna átt en aftur á móti hefur verið lögð áhersla á að rækta burtu þann eiginleika að drepa bráðina. Þessu er öfugt farið með suma veiðihunda, til dæmis "terrier"-hunda, þar sem áhersla hefur verið á að rækta hunda sem hika ekki við að drepa bráðina þegar hún er fundin. Aðrir veiðihundar hafa verið ræktaðir sérstaklega til þess að sækja bráð og færa "fjölskyldunni", í þessu tilviki eigandanum.
Hundurinn er talinn með elstu húsdýrum mannsins og ræktuð hafa verið mörg hundakyn eftir þeim notum sem menn hafa viljað hafa af hundunum.
Meðal flestra hundakynja hafa verið ræktaðir hundar sem sýna hvolpaatferli á fullorðinsaldri. Hálfstálpaðir úlfar eru undirgefnir fullorðnum úlfum þótt þeir myndi gjarnan virðingarröð sín á milli. Fullorðnir úlfar leita hins vegar færis að verða foringjar hópsins og það getur kostað átök milli þeirra. Þessi eiginleiki er óæskilegur í hundum því að við viljum vera foringjar hundanna en ekki öfugt. Mikilvægt er að rugla ekki saman óþekkt og lönguninni til að verða foringi. Allir hundar geta orðið óþekkir ef þeir eru ekki þjálfaðir rétt.
Misjafnt er eftir hundakynjum hversu langt ræktunin hefur náð. Þar sem ræktunin hefur náð lengst að þessu leyti eru hundar undirgefnir öllu fólki, svipað og sjá má á götum í stórborgum erlendis. Í öðrum hundakynjum eru hundarnir undirgefnir eigandanum og fjölskyldu hans, þannig að þeir sætta sig við að vera neðar í virðingarstiganum en eigendurnir, en líta hins vegar á ókunnugt fólk sem keppinauta og geta því verið varasamir fyrir það. Auk þess sem þetta er breytilegt eftir hundakyni skiptir uppeldi hundsins máli, hvort hann hefur fengið gott atlæti, hvort hann er vanur að umgangast ókunnuga og svo framvegis
Úlfar og hundar hafa ákveðið táknmál til þess að lýsa stöðu sinni og fyrirætlunum. Allir kannast við hvernig þeir sýna undirgefni, það er að segja með því að leggja niður rófuna og dilla henni, beygja sig niður og jafnvel leggjast fyrir framan þann sem þeir eru að auðsýna undirgefni. Táknmálið virðist að mestu leyti vera meðfætt og skilningur á því líka. Fólk sem umgengst hunda mikið skilur þetta táknmál. Það getur því áttað sig á því hvort hundur er líklegur til árásar eða ekki og getur brugðist rétt við. Þeir sem ekki skilja táknmálið geta brugðist rangt við og jafnvel espað hund óvart til árásar.
Úlfar eru að jafnaði afar þolinmóðir gagnvart ungum ylfingum í fjölskyldu sinni enda hjálpast öll fullorðin dýr í hópnum að við uppeldið. Hundar eru eins og úlfar að þessu leyti og þeir virðast líka næmir á atferli ungra barna og auðsýna þeim mikla þolinmæði. Séu börn mjög harðhent geta hundar þó átt til að aga þau, eins og þeir gera stundum við hvolpa, með því að skella þeim í jörðina og halda þeim niðri með kjaftinum. Þá eru þess dæmi að hundar hafi reynt að taka grátandi ungbörn upp með kjaftinum ef foreldrarnir eru ekki nálægt. Afleiðingarnar geta verið hörmulegar.
Hundar skynja ýmislegt í umhverfinu sem menn skynja ekki. Þeir hafa til dæmis miklu næmara þefskyn en við Einnig heyra hundar hljóð með hærri tíðni en við heyrum og því eru til sérstakar hundaflautur sem senda frá sér hljóð sem hundar heyra en við ekki. Sum not sem við höfum af hundum byggjast á þessum skynjunum þeirra umfram okkur, samanber leitarhunda hvers konar. Þegar hundar sýna viðbrögð sem við skiljum ekki, fara til dæmis eða gelta eða æsa sig eða sýna einhvers konar grimmd án sýnilegrar ástæðu, getur til dæmis vel verið að þeir hafi skynjað eitthvað sem fer framhjá okkur.
Umfram allt verðum við að muna að hundar eru ekki menn. Hugarheimur þeirra og táknmál er annað en okkar. Þess vegna ættum við að forðast að nálgast ókunnuga hunda að fyrra bragði. Þeir kunna að líta á það sem innrás á óðal sitt, ögrun eða hættu fyrir sig og eigendurna. Flestir hundar vilja þó vinsamleg samskipti við alla menn en við ættum að láta þá hafa frumkvæðið að samskiptunum nema við séum þeim mun betur að okkur í táknmáli þeirra.
Mynd:
Páll Hersteinsson (1951-2011) og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru hundar stundum grimmir og stundum góðir?“ Vísindavefurinn, 8. ágúst 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=735.
Páll Hersteinsson (1951-2011) og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 8. ágúst). Af hverju eru hundar stundum grimmir og stundum góðir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=735
Páll Hersteinsson (1951-2011) og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru hundar stundum grimmir og stundum góðir?“ Vísindavefurinn. 8. ágú. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=735>.