Rannsóknir á hörpudiskum benda til þess að sé frekar staðbundnir og færi sig lítið um set. Þeir geta þó synt nokkra metra í senn með því að opna og loka skeljunum snögglega. Hörpudiskar geta lifað nokkuð þétt og þar sem umhverfisskilyrði eru hagstæð hafa fundist yfir 100 einstaklingar á fermetra eða á bilinu 5-6 kg. Hörpudiskurinn síar fæðu sína úr sjónum í gegnum tálknin. Fæðan samanstendur einkum af plöntusvifi og örsmáum lífrænum ögnum. Þau dýr sem leggja sér hörpudisk til munns eru aðallega botnlægir sjávarhryggleysingjar, eins og krossfiskur, beitukóngur, trjónukrabbi og svo æðarfugl. Vitað er að fiskar, svo sem steinbítur og þorskur, éta einnig hörpudisk. Þó hörpudiskur finnist í flestum landshlutum er hann langalgengastur í Breiðafirðinum og hefur hann því mest verið veiddur þar. Yfirstandandi fiskveiðiár er hins vegar fimmta fiskveiðiárið í röð sem engar veiðar á hörpudiski eru leyfðar hér við land vegna bágborins ástands stofnsins. Þess má geta að á árunum 1996 til 2000 var heildaraflinn hér við land að jafnaði um 9.600 tonn, þar af 8.600 tonn úr Breiðafirði. Önnur mikilvæg veiðisvæði hörpudisks eru í sunnanverðum Faxaflóa, Húnaflóa og undan Ströndum. Heimildir, myndir og frekari fróðleikur:
- Hörpudiskur í Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2006/2007. Aflahorfur fiskveiðiárið 2007/2008. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 129. Skoðað 31. 3. 2008
- Hörpudiskur á vef Hafrannsóknastofunarinnar. Skoðað 31. 3. 2008.
- Hörpudiskur á Fjaran og hafið. Skoðað 31. 1. 2008.
- Mynd af hörðudiski: Fisheries and Oceans Canada. Sótt 31. 3. 2008.
- Kort af veiðisvæðum hörpudisks: Hörpudiskur í Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2006/2007. Aflahorfur fiskveiðiárið 2007/2008. Hafrannsóknastofnunin Fjölrit nr. 129. Sótt 31. 3. 2008.