- Af hvaða ástæðu var bjór bannaður á Íslandi í svo mörg ár en ekki sterkara áfengi?
- Af hverju var bjór bannaður á Íslandi?
- Hvenær var bjór fyrst leyfður á Íslandi?
- Hvenær var bjór bannaður á Íslandi?
- Hver voru áhrif afléttingar bjórbanns á áfengisneyslu Íslendinga?
Áhrif lögleiðingar bjórs á heildarsölu áfengis og neyslumynstur
Áhrif lögleiðingar bjórs árið 1989 voru ekki að öllu leyti í samræmi við væntingar. Málsvarar bjórbannsins spáðu umtalsverðri aukningu á áfengisneyslu landsmanna í kjölfar lögleiðingar. Fyrsta árið jókst neyslan verulega en hún gekk þó fljótt til baka. Árið 1988, þegar bjórbannið var afnumið á Alþingi, nam árleg neysla af hreinum vínanda 3,39 lítrum á mann, en árið 1995 var hún aðeins örlítið meiri eða 3,6 lítrar (Helgi Gunnlaugsson og Galliher, 2010). Árið 2007 höfðu tölurnar aftur á móti hækkað umtalsvert eða í alls sex lítra á mann. Athyglisvert er að sala á áfengi byrjaði að vaxa áður en bjórbanninu var aflétt. Árið 1966, svo dæmi sé tekið, nam árleg neysla af hreinum vínanda 2,33 lítrum á mann, en árið 1978 hafði hún aukist í 2,88 lítra (Helgi Gunnlaugsson og Galliher, 2000). Fleiri þættir en bann eða lögleiðing á bjór virðast því hafa áhrif á sölu áfengis. Samdráttur í hagkerfinu snemma á tíunda áratugnum dró úr kaupmætti Íslendinga sem að líkindum hélt aftur af bjór- og áfengissölu á þeim tíma. Seint á tíunda áratugnum og í byrjun 21. aldarinnar náði hagkerfið sér á strik á ný með meiri kaupmætti almennings og aukinni áfengissölu. Minnkandi áfengissölu varð sömuleiðis vart í kjölfar hrunsins árið 2008 (Visir.is, 2009) en salan jókst á ný með batnandi efnahag almennings (Hagstofa Íslands, 2015). Aðrar breytingar í átt að frjálslyndari áfengisstefnu hafa einnig orðið á Íslandi á síðustu árum. Stefna stjórnvalda í áfengismálum hefur á síðari árum mótast æ meir af markaðssjónarmiðum. Árið 1954 hafði aðeins eitt veitingahús leyfi til að selja áfengi. Þau voru orðin 37 árið 1980, 148 árið 1988 og 322 árið 1994. Árið 2001 voru vínveitingaleyfin orðin 512 en fjölgun þeirra þá var einkum á landsbyggðinni (Helgi Gunnlaugsson og Galliher, 2010). Árið 2017 eru leyfin aftur á móti komin vel yfir eitt þúsund (Alþingi, 2017). Sömu þróun má sjá í fjölgun útsölustaða ÁTVR. Staðirnir voru aðeins sjö árið 1962, 24 árið 1994 en voru komnir yfir fimmtíu árið 2017 (ÁTVR, 2017). Frjálslyndari áfengisstefna sem birtist í fleiri sölustöðum, rýmri opnunartíma, og almennt meira aðgengi að áfengi, hefur því án vafa átt þátt í að auka áfengisneyslu í landinu og afnám bjórbannsins aðeins einn liður í þeirri aukningu. Mikilvæg breyting hefur orðið á neyslu sterkra drykkja á síðustu áratugum. Um leið og bjórinn kom til sögunnar árið 1989 byrjaði að draga úr neyslu á sterku áfengi. Neysla léttvína nánast tvöfaldaðist og bjórsalan jókst enn meira á næstu árum. Á sama tíma dró úr neyslu á sterku áfengi og varð aðeins um helmingur þess sem hún var síðla á níunda áratug síðustu aldar (Helgi Gunnlaugsson, 2012). Bjórinn bættist því ekki einfaldlega strax við sterkvínsdrykkjuna sem margir bjórandstæðingar töldu líklegt að myndi gerast við afnám bannsins. Neyslan færðist frá sterkari drykkjum í áttina að veikari áfengistegundum. Nýir drykkjusiðir hafa látið á sér kræla á síðustu árum. Dregið hefur úr áberandi ölvunarástandi á almannafæri. Breytt viðhorf til áfengisneyslu hafa leitt til þess að fólk drekkur minna hverju sinni, en ef til vill við fleiri tækifæri en áður (Hildigunnur Ólafsdóttir, 1999; Hagstofa Íslands, 2017).
Bjórinn hefur ekki orðið til að auka drykkju ungmenna því mælingar ESPAD sýna að áfengisneysla grunnskólanemenda hefur minnka og er nú með því minnsta sem gerist í V-Evrópu.
Niðurstaða
Með opnun Íslands gagnvart umheiminum hefur íslenskt samfélag tekið gagngerum breytingum á síðustu áratugum. Löggjöfin og framkvæmd hennar í áfengismálum hefur færst til frjálsræðisáttar og viðhorf landsmanna til áfengis færst nær því sem gerist annars staðar í V-Evrópu. Á sama tíma hefur neysla áfengis aukist hér á landi. Lærdómurinn er ljós sem draga má af íslenska bjórmálinu: Afar líklegt er að upptaka markaðslögmála og rýmkun reglna um notkun vímuefna, hvort heldur er áfengis eða annarra fíkniefna, leiði til aukinnar neyslu í samfélaginu. Heimildir:- Alþingi, (2017). Svar ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Nicole Leigh Mosty um fjölda vínveitingaleyfa. Sótt 24. maí 2017: http://www.althingi.is/altext/146/s/0363.html.
- ÁTVR, (2017). Saga ÁTVR. Sótt af heimasíðu ÁTVR 24. maí 2017: http://www.vinbudin.is/heim/um_atvr/saga-atvr/saga-%C3%A1tvr.aspx.
- ESPAD (2015). The ESPAD Report 2015: Results from the European School Survey Project on Alcohol and other Drugs. Sótt 17. febrúar, 2017: http://www.espad.org/report/home.
- Ásgeir Guðmundsson, (1975). Saga áfengisbannsins á Íslandi. Reykjavík: Háskóli Íslands.
- Ferðamálastofa, (207). Fjöldi ferðamanna. Sótt 26. maí 2017 af: https://www.ferdamalastofa.is/is/tolur-og-utgafur/fjoldi-ferdamanna.
- Hagstofa Íslands, (2015). Umfang áfengisneyslu á Íslandi. Sótt 26. maí 2017 af: http://www.heilsuhegdun.is/afengi/annad/tolulegar-upplysingar/umfang-afengisneyslu-a-%C3%ADslandi/.
- Hagstofa Íslands, (2017). Áfengisneysla á Íslandi. Sótt 26. maí 2017 af: https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/heilbrigdismal/afengisneysla-a-islandi/.
- Helgi Gunnlaugsson, (2009). Lögleiðing bjórs á Íslandi: Félagsleg átakamynstur og afnám bannsins. Í Rannsóknir í félagsvísindum X Félags- og mannvísindadeild, bls. 61-72. Ritstjórar Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Helgi Gunnlaugsson, (2012). Extreme case of life-style regulation: Prohibition of beer in Iceland 1915-1989. Í Hellman, M., Roos, G. og Wright, J. v. (ritstj.). A Welfare Policy Patchwork – Negotiating the Public Good in Times of Transition, bls. 259-276. Stokkhólmur: The Nordic Centre for Welfare and Social Issues.
- Helgi Gunnlaugsson og J. F. Galliher, (2000). Wayward Icelanders: Punishment, Boundary Maintenance and the Creation of Crime. Madison: University of Wisconsin Press.
- Helgi Gunnlaugsson og J. F. Galliher, (2010). Drug Globalization: Eventual Legalization of Beer in Iceland and Marihuana Decriminalization in the USA. Journal of Scandinavian Studies in Criminology and Crime Prevention, 11: 2, 119-134.
- Hildigunnur Ólafsdóttir, (1999). The entrance of beer into a persistent spirits culture. Contemporary Drug Problems 26/Winter: 545-575.
- Ingunn Hansdóttir, Valgerður Á. Rúnarsdóttir og Þórarinn Tyrfingsson, (2015). Addiction Treatment in Iceland. Í el-Guebaly, N., Carrá, G. and Galanter M. (ritstj.). Textbook of Addiction Treatment: International Perspectives. Vol 1, bls. 1199-1207. Milan: Springer.
- MacAndrew, C. og R. B. Edgerton, (1969). Drunken Comportment: A Social Explanation. Chicago: Aldine.
- Morgunblaðið, (2009, 1. mars). Teygaður í tuttugu ár, bls. 8.
- OECD Health Statistics 2015, (2016). OECD Health Statistics 2015 Definitions, Sources and Methods. Alcohol consumption in liters per capita (ages 15+). Sótt 17. febrúar, 2017: http://www.keepeek.com/Digital-Asset-Management/oecd/social-issues-migration-health/health-at-a-glance-europe-2016_9789264265592-en#.WKbSu2-LSUk#page1.
- Visir.is, (2009, 16. júlí). Sala á húsgögnum hrynur. Sótt 24. maí 2017 af: http://www.visir.is/g/2009143713237/sala-a-husgognum-hrynur.
- Þóroddur Bjarnason, (2009). Vímuefnaneysla íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði. Akureyri: Rannsóknasetur forvarna við Háskólann á Akureyri.
- Spanish Wine Experience – Wine experiences and more. (Sótt 8. 6. 2017).
- Free photo: Beer, Chopp, Happy Hour, Drink - Free Image on Pixabay - 2218900. (Sótt 8. 6. 2017).
- Youth drinking targeted in WA liquor law review - WAtoday.com.au. (Sótt 8.6.2017).