Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Uppruni orðasambandsins lon og don er ókunnur. Elst dæmi um það eru í söfnum Orðabókar Háskólans frá miðri 19. öld. Í skáldsögu Jóns Thoroddsens, Manni og konu, segir prestsfrúin til dæmis við bróður sinn: „þú situr lon og don yfir lestrinum“ og hefði orðasambandið tæplega verið notað hefði það ekki verið vel skiljanlegt lesendum. Merkingin er ‘í sífellu, sleitulaust’. Eldra er orðasambandið að láta lon í merkingunni ‘hætta einhverju’ en um það á Orðabókin elst dæmi frá síðasta hluta 17. aldar. Sögnin að lona þekkist einnig í merkingunni ‘minnka, draga úr’, til dæmis í þessum vísuparti úr Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar (II: 197): „Þrautir lona þels um bú / þú ert kona orðin nú.“
Í skáldsögunni Manni og konu segir: "þú situr lon og don yfir lestrinum". Málverkið er af konu að lesa eftir Claude Monet, frá 1872.
Nafnorðið don í orðasambandinu er hugsanlega sama orð og don í merkingunni ‘búnaður; framkoma’, sem þekkist frá 18. öld og er tökuorð úr dönsku dont ‘verk’. Ásgeir Blöndal Magnússon giskar á í Íslenskri orðsifjabók (1989: 120) að orðasambandið lon og don merki þá ‘í hvíld og í starfi’, samanber sögnina að dona við eitthvað ‘linast, hætta við eitthvað.
Mynd:
Guðrún Kvaran. „Hvað merkir 'lon og don' og hvaðan kemur orðasambandið?“ Vísindavefurinn, 9. apríl 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7336.
Guðrún Kvaran. (2008, 9. apríl). Hvað merkir 'lon og don' og hvaðan kemur orðasambandið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7336
Guðrún Kvaran. „Hvað merkir 'lon og don' og hvaðan kemur orðasambandið?“ Vísindavefurinn. 9. apr. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7336>.