Gera „hitakrem“ eitthvað gagn við bólgum? Af hverju hitnar manni þegar kremið er borið á mann?Algengustu gerðir hitakrema (til dæmis Deep heat™) innihalda svokölluð húðroðavaldandi efni (e. rubefacients). Þau orsaka húðertingu sem hefur í för með sér roða vegna aukins blóðflæðis um háræðanet húðarinnar. Þessi erting og roði gerir það að verkum að húðin hitnar lítið eitt sem skýrir að vissu leyti hitatilfinninguna sem fólk upplifir þegar þessi krem eru borin á hana. Hins vegar er ekkert sem bendir til að þessi yfirborðshiti nái að leiða niður í undirliggjandi vöðva og/eða liðamót. Það þarf mun meira til að hita vöðva en slíkt áreiti. Til þess er heitt bað eða hreyfing mun áhrifaríkari. Sum krem innihalda einnig efni eins og kapsaísín, mentól eða eukalyptól sem virka beint á taugaenda sem bera boð um hitastig húðarinnar til miðtaugakerfisins án þess að breytingar verði á húðhita í raun.

Hitakrem hita ekki upp vöðva eða liðamót en það er ekki útilokað að þau geti haft í för með sér væga sársaukastillandi og bólgueyðandi verkun.
- Collins, AJ et al: Some observations on the pharmacology of 'deep-heat', a topical rubifacient. Ann Rheum Dis. 1984 Jun; 43(3): 411–415. (Skoðað 13.02.2017).
- Derry, S et al: Salicylate-containing rubefacients for acute and chronic musculoskeletal pain in adults. First published: 26 November 2014. (Skoðað 13.02.2017).
- The Endoskeptic. Deep Heat: it doesn’t warm your muscles (and neither does Tiger Balm). (Skoðað 13.02.2017).
- WebMD. Drugs & Medications. Cool Heat (methyl salicylate-menthol) topical. (Skoðað 13.02.2017).
- 365:275 Deep Heat Massage | I pulled something in my leg mov… | Flickr. Myndrétthafi er Jehane. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 13.02.2017).