Af hverju kalla Íslendingar Roskilde Festival Hróarskeldu Festival?Í ýmsum íslenskum fornritum er nefndur bærinn Hróiskelda þar sem átt er við Roskilde á Skáni. Nefna má vísu í Noregskonungatali í Fagurskinnu og í Morkinskinnu og Hróiskeldu í Hákonar sögu. Í Knýtlinga sögu, einni af Danakonunga sögum, er bærinn nefndur Róiskelda. Nafnið er því gamalt. Giskað er á að fyrri liðurinn sé gamaldanska mannsnafnið Roir en síðari liðurinn er sama og íslenska orðið kelda ‘pyttur, fen’. Karlmannsnafnið Roir hefur þróast úr myndinni HroiR. Norræna mannsnafnið Hróarr er vel þekkt í fornum bókmenntum til dæmis Landnámu, Íslendinga sögum og í þeim verkum sem nefnd voru hér fyrir framan. Það er því mjög eðlileg aðlögun myndarinnar Hróis- að hún verði Hróars- (karlkyn, eignarfall). Í dönskum og norskum karlmannsnöfnum er h-inu sleppt á undan –r, norska nafnmyndin er til dæmis Roar. „Roskilde festival“ gengur vonandi almennt undir nafninu Hróarskelduhátíð á íslensku. Mynd:
- Roskilde Festival - Wikipedia. Myndrétthafi er Bill Ebbesen. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 23.02.2017).