Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hafa verið einhver þorp eða byggðarkjarnar á Íslandi sem hafa lagst algjörlega í eyði? Er svo er, hvaða þorp eru það og hver er saga þeirra?
Svarið við fyrri spurningunni er já, vissulega hafa þorp lagst í eyði. Erfitt er að segja nákvæmlega hve mörg og hvenær vegna þess að álitamál getur verið hvað eigi að telja byggðarkjarna og hvað algert eyði. En ef við leitum til helsta rits okkar Íslendinga um tölulegar staðreyndir, Hagskinnu, er þar tafla um fólksfjölda á þéttbýlisstöðum á tíu ára fresti frá 1890 til 1990 (tafla 2.9). Þar reynast vera tilfærðir 19 staðir með engan íbúa síðasttalda árið. Ekki er þar skilgreint hvaða skilyrði staður þurfi að uppfylla til að vera kallaður þéttbýlisstaður eða til að falla úr hópi þéttbýlisstaða, og ekki virðist taflan vera sér alls kostar samkvæm um það. Umfram Hagskinnu er hér einkum sóttur fróðleikur í uppflettiritið Landið þitt Ísland sem kom út í sex bindum á árunum 1980–85. En þess verður að gæta að fyrsta útgáfa þess verks kom út í tveimur bindum á árunum 1966 og 1968, og er ekki útilokað að einhverjar setningar í seinni útgáfunni eigi frekar við þann tíma.
Eyddir þéttbýlisstaðir Hagskinnu auk tveggja til viðbótar sem nefndir eru í Landið þitt Ísland.
Eyddir þéttbýlisstaðir Hagskinnu eru þessir:
Viðey á Kollafirði, nú í Reykjavíkurkaupstað, er tilfærð með 117 íbúa árið 1930 en engan eftir það. Í Viðey hafði löngum verið stórbúskapur, en í upphafi 20. aldar spratt upp þéttbýli á austurhluta eyjunnar með útgerð og fiskvinnslu og tilheyrandi hafnarmannvirkjum. Landið þitt segir að þorpið hafi farið í eyði árið 1943.
Kvíabryggja á Snæfellsnesi er næsti þéttbýlisstaður sem tafla Hagskinnu telur mannlausan 1990 og segir hana hafa haft 59 íbúa árið 1940 en engan áratug síðar. Í Landinu þínu segir að þar „myndaðist þorpsvísir með verslun framan af þessari [það er 20.] öld“ en sú byggð hafi lagst niður að mestu eftir að frystihús tók til starfa á Grafarnesi árið 1942. Nú er fangelsi á Kvíabryggju og staðurinn því engan veginn í eyði.
Í Flatey á Breiðafirði voru flestir íbúar árið 1920, 189 talsins. 1960 voru þeir komnir niður í 34, og 1970 var enginn skráður íbúi á staðnum. Í Landinu þínu segir hins vegar um Flatey: „nú er þar aðeins fátt fólk eftir.“ Og sá sem kemur til Flateyjar að sumarlagi finnur þar sannarlega heilmikið mannlíf. Þannig getur verið erfitt að ákvarða hvenær byggð telst fara gersamlega í eyði, en hér má þó fullyrða að fyrir 1970 taldi Hagstofan að ekki væri þéttbýli í Flatey lengur.
Flatey á Breiðarfirði.
Sveinseyri við Tálknafjörð er talin með 35 íbúa árið 1960 en engan fyrr eða síðar. En þarna virðist nafnaruglingur á ferð því að Sveinseyri er annars sagt vera annað heiti á þéttbýlisstaðnum Tálknafirði.
Haukadalur í Dýrafirði er sagður hafa haft 86 íbúa 1901 en 54 árið 1950 og engan eftir það. Þar var verslunarstaður og vélbátaútgerð, segir Landið þitt og bætir við að þar séu „fáir á móti því sem áður var.“
Á Ögurnesi og í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi eru skráðir 52 íbúar árið 1940 en enginn fyrr eða síðar. Þar var meðal annars útgerð og aðsetur héraðslæknis til 1951.
Á Hesteyri í Jökulfjörðum var mest byggð 1940 og íbúar 76 en alautt 1950. Landið þitt segir þó að síðustu íbúarnir hafi ekki flust burt fyrr en 1952.
Þorpið Hesteyri í Jökulfjörðum fór í eyði 1952.
Látrar í Aðalvík í Norður-Ísafjarðarsýslu var byggð með flesta íbúa 1920,109 talsins. Árið 1940 voru þeir enn 102. En áratug síðar var staðurinn aleyddur. „Enn standa þar allmörg hús,“ segir Landið þitt.
Gjögur er Strandasýslumegin á Vestfjarðakjálkanum, á norðurströnd Reykjarfjarðar utarlega. Samkvæmt Hagskinnu var mest byggð þar 1940, 70 manns, en í eyði telst staðurinn fara sem þéttbýli á milli 1960 og 1970. Þó segir Landið þitt: „Nú er orðið fátt manna á Gjögri.“
Djúpavík er á suðurströnd Reykjarfjarðar. Þar voru 53 íbúar árið 1940 og 29 árið 1970. Síðan er staðurinn ekki skráður sem þéttbýlisstaður, en Landið þitt segir íbúa þar um 20. Þar hefur lengi verið starfrækt hótel og föst búseta starfsfólks allt árið.
Í Haganesvík í Fljótum í Skagafirði töldust vera 37 íbúar árið 1940 en engir áratug síðar. Þarna virðist einkum hafa verið þjónustumiðstöð fyrir sveitina en jafnframt nokkur útgerð um skeið.
Kljáströnd er á Höfðaströnd austan Eyjafjarðar. Aldrei voru þar skráðir fleiri en 38 íbúar, árið 1940, og enginn eftir það. Í Íslandsatlas er staðurinn merktur sem eyðibýli.
Flatey á Skjálfanda var fjölbyggðust árið 1940, með 115 íbúa. Síðast var skráð þéttbýli þar 1960, með 86 manns. Flatey er einn þeirra staða þar sem sumarbyggð er mikil og lífleg, enda segir Landið þitt: „Nú er Flatey í eyði á vetrum en dvalist er þar við sjósókn á sumrum.“
Flatey á Skjálfanda.
Skálar eru á suðurströnd Langaness utarlega. Þar voru skráðir mest 95 íbúar árið 1930 samkvæmt Hagskinnu, en Landið þitt segir að íbúar hafi verið flestir 117 árið 1924. Árið 1940 bjuggu þar enn 53 en enginn árið 1950.
Eyrar kallaðist þéttbýlisstaður á suðurströnd Seyðisfjarðar eystra. Þar voru sagðir flestir íbúar árið 1930, 78 talsins, en enginn eftir það. Landið þitt segir hins vegar að staðurinn hafi ekki lagst í eyði fyrr en um 1960.
Brekka, á norðurströnd Mjóafjarðar, taldist hafa 124 íbúa árið 1910. Þar fækkaði síðan mjög, og eru síðast skráðir þar 47 íbúar á þéttbýlisstað árið 1930. En kunnugir vita að þar hefur byggð aldrei lagst niður.
Vattarnes er á suðurströnd Reyðarfjarðar úti undir fjarðarmynni. Þar voru skráðir 59 íbúar árið 1950 en enginn eftir það. Í Landinu þínu segir að auk bónda búi þar einn útvegsbóndi.
Papós. Til að standa fyllilega við að tilfæra alla þéttbýlisstaði sem eru í töflu 2.9 í Hagskinnu og taldir mannlausir árið 1990 skal tekið fram að verslunarstaðurinn Papós í Lóni austur er sagður hafa haft 13 íbúa árið 1890 en enga eftir það. Landið þitt segir að þar hafi byggð lagst af árið 1899.
Fyrir kemur að Landið þitt nefni eydda þéttbýlisstaði sem eru ekki í töflu Hagskinnu, engu minni en þá sem þar eru. Þannig segir að á Sæbóli í Aðalvík hafi verið 70 íbúar þegar flest var. Í Kálfshamarsvík á Skaga vestanverðum voru mest um 100 íbúar, en byggðin tók að eyðast eftir 1930 og var horfin fyrir 1940.
Kálfshamarsvík á Skaga.
Fyrir 1890 hefur ekki verið svo umfangsmikil eyðing þéttbýlisstaða að ástæða sé til að gera leit að henni. Þéttbýlisstaðir voru fáir og smáir fyrr en á 19. öld, og þá var búið svo þröngt í landinu að ekkert rúm var til að leggja staði í eyði. Fyrr á öldum voru einkum verbúðir með árstíðabundinni mannvist á útgerðarstöðum. Sveitabæirnir voru lögheimili næstum allra. Eftir 1990 hefur varla nokkur þéttbýlisstaður farið í eyði.
Upptalningin á eyðingu byggðar milli 1890 og 1990 er auðvitað ekki hárnákvæm. En hún gefur örugglega nokkurn veginn rétta heildarmynd af eyðingu þéttbýlisstaða á Íslandi. Á flestum stöðunum hafði orðið til þéttbýli á fyrstu áratugum 20. aldar, og mest varð eyðing þeirra upp úr 1940. Má rekja það til mikillar atvinnu á höfuðborgarsvæðinu og í kringum Keflavíkurflugvöll á stríðsárunum, auk stærri og öflugri fiskiskipa sem beindu sjávarútvegi að stærri stöðum, þar sem hafnaraðstaða var betri.
Heimildir og myndir:
Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
Íslandsatlas. Fjórða prentun, leiðrétt. Kortagerð: Hans H. Hansen. Kortaritstjórn: Örn Sigurðsson. Reykjavík, Edda, 2006.
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson: Landið þitt Ísland I–V og Lykilbók. Reykjavík, Örn og Örlygur, 1980–85.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Eru einhver þorp eða byggðarkjarnar á Íslandi sem hafa lagst algjörlega í eyði?“ Vísindavefurinn, 21. apríl 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73275.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2017, 21. apríl). Eru einhver þorp eða byggðarkjarnar á Íslandi sem hafa lagst algjörlega í eyði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73275
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Eru einhver þorp eða byggðarkjarnar á Íslandi sem hafa lagst algjörlega í eyði?“ Vísindavefurinn. 21. apr. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73275>.