Góðan dag, ég var að reyna að finna á Netinu hvað árið 2017 heitir/stendur fyrir (samanber ár barnsins, ár hafsins og svo framvegis) en ég finn það hvergi. Getið þið frætt mig um það. Ég er leikskólakennari og hef stundum haft þemavinnuna í tengslum við árið.Það hefur lengi tíðkast að tengja ákveðna daga, mánuði, ár og áratugi við tiltekin málefni. Markmiðið er þá að vekja athygli á málefninu og jafnvel grípa til aðgerða til stuðnings því. Til dæmis mætti nefna baráttudag verkalýðsins (1. maí), alþjóðlega mæðradaginn (9. maí), alþjóðlega klósettdaginn (19. nóvember), mottumars (mars), ár barnsins sem spyrjandi nefnir (1979) og áratugur læsis (2003-2012). Í þessu svari verður einungis fjallað um þau ár sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur tileinkað hinum ýmsu málefnum. Það var í lok árs 1958 sem allsherjarþingið ákvað að 1959-1960 yrði alþjóðlegt ár flóttamanna (World Refugee Year) og var það í fyrsta skipti sem slíkt var gert. Ekki er um óslitna hefð að ræða síðan þá en frá og með 1998 hefur að minnsta kosti eitt málefni verið nefnt til sögunnar en oft eru þau fleiri. Til dæmis voru málefnin fjögur árin 2008, 2009, 2011 og 2014.

2017 er alþjóðlegt ár sjálfbærrar ferðaþjónustu og efnahagslegrar þróunar (International Year of Sustainable Tourism for Development).
- International Years | United Nations. (Skoðað 11.01.2017).
- United Nations Observances | United Nations. (Skoðað 11.01.2017).
- List of international observances - Wikipedia. (Skoðað 11.01.2017).
- World Toilet Day - Wikipedia. (Skoðað 11.01.2017).
- Árið 2017 tileinkað sjálfbærri ferðaþjónustu og efnahagslegri þróun | Ferðamálastofa. (Skoðað 11.01.2017).
- Social Media Images – TRAVEL ENJOY RESPECT. (Sótt 11.01.2017).