Hvað er að draga seiminn? Hvað þýðir seimur og hvaðan kemur það?Seimur merkir ‘ómur, ymur’. Orðasambandið að draga seiminn ‘að tala dragandi röddu; draga síðasta atkvæðið í söng’ þekkist í báðum merkingum frá 18. og 19. öld. Elsta heimild í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá 1821 í bókinni Nýtilegt Barna-gull edur Støfunar- og Lestrar-qver handa Børnum eftir Bjarna Arngrímsson:
Varast áttu [ [...]] ad draga seim, og hvern annan kjæk.Í orðtakasafni Halldórs Halldórssonar (1969 II: 102) segir að seimur hafi í fornu máli haft merkinuna ‘söngur’ í kenningum. Þá merkingu er þó ekki að finna í fornmálsorðabók Johans Fritzners. Uppruni orðsins seimur er samkvæmt Íslenskri orðsifjabók (1989:802) óviss. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Fritzber, Johan. 1896. Ordbog over det gamle norske Sprog. III. (R–Ö). Den norske Forlagsforening. Kristiania.
- Halldór Halldórsson. 1969. Íslenzkt orðtakasafn. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. (Skoðað 30.01.2017).