Af hverju segir maður fram í rauðan dauðann? Hvaða rauði dauði er það? Rauður jarðvegur, mold, gröf?Orðasambandið fram í rauðan dauðann þekkist að minnsta kosti frá fyrsta þriðjungi 17. aldar. Merkingin er ‘eins lengi og unnt er’. Elsta heimild í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr bók eftir Arngrím Jónsson lærða sem gefin var út á Hólum 1618:
draga þig so wr Drottins Verndar skiole / og j raudan Daudan.Í ritinu Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson (2006:135) eru nefndar tvær hugsanlegar skýringar. Önnur er sú að dauðinn vísi til blóðugra átaka og að rauður hafi hér áherslumerkingu. Hin er sú að dauðinn vísi til sólarlags og sólarlagið sé rautt. Báðar skýringarnar tel ég að komi vel til greina. Blóðugum átökum fylgir oft dauði og rautt sólarlagið getur minnt á blóð sem fylgir slysförum og dauða. Eiginlega merkingin er þá yfirfærð yfir á þann sem gefst ekki upp og stendur á meðan stætt er. Heimild:
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Önnur útgáfa. Mál og mennig, Reykjavík.
- Red Sunrise | S. Bhaskara Rao | Flickr. Myndrétthafi er S. Bhaskara Rao. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 30.01.2017).