Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er elsti kaupstaður á Íslandi?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Orðið kaupstaður hefur ekki alltaf haft sömu merkingu í íslensku máli. Í norrænu fornmáli var það haft um stað þar sem seljendur og kaupendur að vörum hittust og kaup fóru fram. Þannig segir í Íslendingasögunni Valla-Ljóts sögu: „Skip kom út [það er til Íslands] um sumarið í Eyjafirði, og var þar kaupstaður mikill.“ Engar líkur eru til að þetta merki að þar hafi verið þéttbýlisstaður; kaupstaður var bara staður þar sem kaup voru gerð. En verslun var þá, eins og síðar, líkleg til að draga að sér byggð svo að þar myndaðist þéttbýli, þótt ekki yrði það á Íslandi fyrr en á 18. öld. Þegar talað er um kaupstaði erlendis í íslenskum fornsögum eru það að minnsta kosti stundum þéttbýlisstaðir. Þannig segir í Heimskringlu að Ólafur konungur kyrri hafi sett kaupstað í Björgvin. „Gerðist þar brátt mikið setur auðugra manna og tilsiglingar kaupmanna af öðrum löndum.“ Að setja kaupstað hefur meðal annars verið að veita íbúum á ákveðnum þéttbýlisstað vissa sjálfstjórn og forréttindi til að stunda verslun og handverk, fá byggingarlóðir og fleira. Á Norðurlöndum voru kaupstaðir oft kallaðir staðir, bæir eða kaupangar. Engir slíkir kaupstaðir eru nefndir á Íslandi.

Á Íslandi var nánast ekkert þéttbýli nema helst þyrpingar þurrabúða þar sem fiskveiðar voru stundaðar. Þegar fyrst var gert manntal á Íslandi, árið 1703, bjuggu til dæmis 180 manns í 55 þurrabúðum nokkurn veginn þar sem kauptúnið Hellissandur á Snæfellsnesi er nú (þótt það nafn væri ekki notað þá), og var það fjölmennasti staður landsins. En þar var ekki kaupstaður, enda var þar ekki einu sinni verslun. Upp úr miðri 18. öld var tekið að stofna til verkstæða til að vefa klæði úr ull með nýju sniði og stuðla að öðrum framförum í atvinnumálum á Íslandi. Þessi starfsemi var kölluð Innréttingarnar nýju, og var miðstöð þeirra sett niður á jörðinni Reykjavík á Seltjarnarnesi, sem þá var oft kölluð Vík. Í framhaldi af því spratt þar upp dálítið þéttbýli. Um 1770 voru um 290 íbúar í kirkjusókn Reykjavíkur, og mun meirihluti þeirra hafa átt heima í þéttbýlinu.

Reykjavík 1835.

Árið 1787 var einokunarverslun Dana á Íslandi lögð niður og verslunarkerfið skipulagt upp á nýtt. Meðal annars var þá ákveðið að stofna sex kaupstaði á landinu, í Reykjavík, Grundarfirði á Snæfellsnesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði og Vestmannaeyjum. Þeim sem vildu setjast að á þessum stöðum var heitið ókeypis lóð og byggingarstyrk, einnig undanþágu frá sköttum í 20 ár, nema sköttum til kaupstaðarins sjálfs. Landinu var skipt upp í kaupsvið þessara kaupstaða og kaupmönnum í hverjum kaupstað heimilað að reka verslanir á tilteknum verslunarstöðum innan kaupsviðsins. Konungstilskipun um þetta gekk í gildi í ársbyrjun 1788, og voru þetta fyrstu formlegu kaupstaðirnir á Íslandi.

Allir voru þessir staðir sárafámennir nema helst Reykjavík. Hugmynd stjórnvalda var sýnilega sú að þeir þróuðust upp í þéttbýlisstaði. Lítið varð úr því nema í Reykjavík þar sem fólki hélt áfram að fjölga, kannski einkum vegna þess að stjórnarstofnunum landsins var smátt og smátt safnað saman þar: stiftamtmanni, biskupi og skóla, landsyfirrétti. Það fór líka svo að allir hinir staðirnir misstu kaupstaðarréttindi sín á árunum 1807–36. Fyrst til að fá þau aftur var Akureyri 1862 og Ísafjörður 1866. Seyðisfjörður bættist síðan við árið 1895.

Þegar hér var komið sögu áttu kaupstaðarréttindi lítið skylt við það sem þau höfðu verið þegar Björgvin var gerð að kaupstað á síðari hluta 11. aldar eða jafnvel Reykjavík árið 1787. Sérstaða kaupstaða fólst nú orðið einkum í því að þeir voru sérstakt sveitarfélag, undir stjórn kjörinnar bæjarstjórnar og bæjarstjóra, um leið og þeir stóðu utan þeirrar sýslu sem þeir voru staðsettir í og höfðu yfir sér bæjarfógeta með nokkurn veginn sama hlutverk og sýslumenn í sýslum.

Hvert er þá svarið við spurningunni? Mér finnst réttast að líta svo á að kaupstaðastofnunin 1787 hafi mistekist nema í Reykjavík. Hún er því fyrsti formlegi kaupstaður landsins.

Heimildir og myndir
  • Einar Laxness: Íslandssaga i–r. Alfræði Vöku-Helgafells. Reykjavík. Vaka-Helgafell, 1995.
  • Fritz, Birgitta, Grethe Authén Blom, Helmuth Schledermann, Erik Kroman & Aulis Oja: „Stad.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVI (1971), 545–65.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Íslenzk fornrit IX. Eyfirðinga sögur. Jónas Kristjánsson gaf út. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1956.
  • Íslenzk fornrit XXVIII. Snorri Sturluson: Heimskringla III. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1951.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Mynd af Reykjavík: Gaimard01.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24. 3. 2017).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.4.2017

Síðast uppfært

14.8.2024

Spyrjandi

Birgir Vilhjálmsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver er elsti kaupstaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73186.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2017, 27. apríl). Hver er elsti kaupstaður á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73186

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver er elsti kaupstaður á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73186>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er elsti kaupstaður á Íslandi?
Orðið kaupstaður hefur ekki alltaf haft sömu merkingu í íslensku máli. Í norrænu fornmáli var það haft um stað þar sem seljendur og kaupendur að vörum hittust og kaup fóru fram. Þannig segir í Íslendingasögunni Valla-Ljóts sögu: „Skip kom út [það er til Íslands] um sumarið í Eyjafirði, og var þar kaupstaður mikill.“ Engar líkur eru til að þetta merki að þar hafi verið þéttbýlisstaður; kaupstaður var bara staður þar sem kaup voru gerð. En verslun var þá, eins og síðar, líkleg til að draga að sér byggð svo að þar myndaðist þéttbýli, þótt ekki yrði það á Íslandi fyrr en á 18. öld. Þegar talað er um kaupstaði erlendis í íslenskum fornsögum eru það að minnsta kosti stundum þéttbýlisstaðir. Þannig segir í Heimskringlu að Ólafur konungur kyrri hafi sett kaupstað í Björgvin. „Gerðist þar brátt mikið setur auðugra manna og tilsiglingar kaupmanna af öðrum löndum.“ Að setja kaupstað hefur meðal annars verið að veita íbúum á ákveðnum þéttbýlisstað vissa sjálfstjórn og forréttindi til að stunda verslun og handverk, fá byggingarlóðir og fleira. Á Norðurlöndum voru kaupstaðir oft kallaðir staðir, bæir eða kaupangar. Engir slíkir kaupstaðir eru nefndir á Íslandi.

Á Íslandi var nánast ekkert þéttbýli nema helst þyrpingar þurrabúða þar sem fiskveiðar voru stundaðar. Þegar fyrst var gert manntal á Íslandi, árið 1703, bjuggu til dæmis 180 manns í 55 þurrabúðum nokkurn veginn þar sem kauptúnið Hellissandur á Snæfellsnesi er nú (þótt það nafn væri ekki notað þá), og var það fjölmennasti staður landsins. En þar var ekki kaupstaður, enda var þar ekki einu sinni verslun. Upp úr miðri 18. öld var tekið að stofna til verkstæða til að vefa klæði úr ull með nýju sniði og stuðla að öðrum framförum í atvinnumálum á Íslandi. Þessi starfsemi var kölluð Innréttingarnar nýju, og var miðstöð þeirra sett niður á jörðinni Reykjavík á Seltjarnarnesi, sem þá var oft kölluð Vík. Í framhaldi af því spratt þar upp dálítið þéttbýli. Um 1770 voru um 290 íbúar í kirkjusókn Reykjavíkur, og mun meirihluti þeirra hafa átt heima í þéttbýlinu.

Reykjavík 1835.

Árið 1787 var einokunarverslun Dana á Íslandi lögð niður og verslunarkerfið skipulagt upp á nýtt. Meðal annars var þá ákveðið að stofna sex kaupstaði á landinu, í Reykjavík, Grundarfirði á Snæfellsnesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði og Vestmannaeyjum. Þeim sem vildu setjast að á þessum stöðum var heitið ókeypis lóð og byggingarstyrk, einnig undanþágu frá sköttum í 20 ár, nema sköttum til kaupstaðarins sjálfs. Landinu var skipt upp í kaupsvið þessara kaupstaða og kaupmönnum í hverjum kaupstað heimilað að reka verslanir á tilteknum verslunarstöðum innan kaupsviðsins. Konungstilskipun um þetta gekk í gildi í ársbyrjun 1788, og voru þetta fyrstu formlegu kaupstaðirnir á Íslandi.

Allir voru þessir staðir sárafámennir nema helst Reykjavík. Hugmynd stjórnvalda var sýnilega sú að þeir þróuðust upp í þéttbýlisstaði. Lítið varð úr því nema í Reykjavík þar sem fólki hélt áfram að fjölga, kannski einkum vegna þess að stjórnarstofnunum landsins var smátt og smátt safnað saman þar: stiftamtmanni, biskupi og skóla, landsyfirrétti. Það fór líka svo að allir hinir staðirnir misstu kaupstaðarréttindi sín á árunum 1807–36. Fyrst til að fá þau aftur var Akureyri 1862 og Ísafjörður 1866. Seyðisfjörður bættist síðan við árið 1895.

Þegar hér var komið sögu áttu kaupstaðarréttindi lítið skylt við það sem þau höfðu verið þegar Björgvin var gerð að kaupstað á síðari hluta 11. aldar eða jafnvel Reykjavík árið 1787. Sérstaða kaupstaða fólst nú orðið einkum í því að þeir voru sérstakt sveitarfélag, undir stjórn kjörinnar bæjarstjórnar og bæjarstjóra, um leið og þeir stóðu utan þeirrar sýslu sem þeir voru staðsettir í og höfðu yfir sér bæjarfógeta með nokkurn veginn sama hlutverk og sýslumenn í sýslum.

Hvert er þá svarið við spurningunni? Mér finnst réttast að líta svo á að kaupstaðastofnunin 1787 hafi mistekist nema í Reykjavík. Hún er því fyrsti formlegi kaupstaður landsins.

Heimildir og myndir
  • Einar Laxness: Íslandssaga i–r. Alfræði Vöku-Helgafells. Reykjavík. Vaka-Helgafell, 1995.
  • Fritz, Birgitta, Grethe Authén Blom, Helmuth Schledermann, Erik Kroman & Aulis Oja: „Stad.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XVI (1971), 545–65.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Íslenzk fornrit IX. Eyfirðinga sögur. Jónas Kristjánsson gaf út. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1956.
  • Íslenzk fornrit XXVIII. Snorri Sturluson: Heimskringla III. Reykjavík, Hið íslenzka fornritafélag, 1951.
  • Lýður Björnsson: „18. öldin.“ Saga Íslands VIII (Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 2006), 1–289.
  • Mynd af Reykjavík: Gaimard01.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24. 3. 2017).
...