Mig vantar íslensk heiti á risaeðlunum abelisaurus og eustreptospondylus.Eftir því sem næst verður komist eru ekki til íslensk heiti á þeim risaeðlum sem spurt er um. Þau heiti sem hér verður stungið upp á eru því eingöngu byggð á áliti höfundar þessa svars. Abelisaurus er heiti á ættkvísl risaeðla sem var uppi á seinni hluta krítartímabilsins, fyrir um 70-80 milljón árum. Enn sem komið er þekkist aðeins ein tegund þessarar ættkvíslar, það er Abelisaurus comahuensis. Einu leifar þessarar eðlu er höfuðkúpa sem argentínskur steingervingafræðingur að nafni Roberto Abel (1919-2008) fann í Patagóníu í Argentínu árið 1983. Fyrri hlutinn í heiti abelisaurus vísar því til nafns mannsins sem fann eðluna, en þess má einnig geta að mannsnafnið Abel kemur fyrir í Biblíunni. Sá Abel var næstelsti sonur Adams og Evu og drepinn af bróður sínum sem hét Kain. Seinni hluti risaeðluheitisins er gríska orðið sauros en það merkir eðla. Abelisaurus mætti því einfaldlega nefna abelseðlu á íslensku. Eustreptospondylus er heiti á ættkvísl risaeðla sem reikuðu um á því svæði sem nú er Suður-England á miðhluta júratímabilsins fyrir um 165 - 161 milljón ári síðan. Eins og á við um abelisaurus er aðeins ein þekkt tegund, Eustreptospondylus oxoniensis. Nafnið vísar í gerð hryggjar eðlunar sem merkir eiginlega snúinn eða úthverfur hryggur (á ensku 'reversed spine' eða 'turned vertebra') þar sem hryggjaliðirnir hafa ákveðna sveigju. Íslensk heiti hennar gæti því vísað til boginnar hryggsúlunnar eins og latneska heitið og hún einfaldlega kallast boghyrna. Heimildir:
- Abelisaurus - Wikipedia. (Skoðað 30. 11. 2016).
- Abelisaurus - Prehistoric wildlife.com. (Skoðað 30. 11. 2016).
- Eustreptospondylus - Wikipedia. (Skoðað 30. 11. 2016).
- Eustreptospondylus oxoniensis - an ancient dinosaur - Dinosaur-world.com. (Skoðað 30. 11. 2016).