Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvort er réttara fyrir sveitarfélög og ríkið að nota orðið nýbúar eða innflytjendur um þá sem kjósa að flytja til Íslands?
Þessari spurningu er erfitt að svara. Bæði orðin eru gildishlaðin, það er þau verka neikvætt á marga og um leið má segja að þau þjóni ekki lengur tilgangi sínum. Orðið nýbúi er fremur ungt í málinu, búið til á níunda áratug síðustu aldar í þeim tilgangi að geta nefnt aðflutt fólk með jákvæðara orði en útlendingur eða innflytjandi. Lítum aðeins á skýringar Íslenskrar orðabókar (ÍO) 2002 á þessum orðum:
Innflytjandi hefur tvær merkingar: 1. sá sem flytur inn vöru, stundar innflutning og 2. (útlendur) maður sem er að flytjast (er nýfluttur) til lands (2002:710). Orðið er til í málinu að minnsta kosti frá miðri 19. öld. Útlendingur: maður í eða úr öðru landi (2002:1675). Bæði orðin eru í útgáfunum frá 1963 og 1983 og útlendingur þekkist þegar í fornu máli.
Nýbúi er fletta í útgáfu ÍO 2002 en ekki í þeim eldri. Skýringin er: ‘maður sem hefur flust til nýs lands til að setjast þar að (oftast um langan veg eða frá ólíku menningarsvæði) (2001: 1073). Viðbótin í sviganum setur hina nýju íbúa, vafalaust á þessum tíma ómeðvitað, í ákveðinn flokk eða ákveðna flokka.
Í Íslenskri samheitaorðabók er samheitið við nýbúi ‘innflytjandi’ og samheitið við innflytjandi ‘nýbúi’.
Bæði orðin nýbúi og innflytjandi eru gildishlaðin, það er þau verka neikvætt á marga og um leið má segja að þau þjóni ekki lengur tilgangi sínum.
Árið 1996 skrifaði Ingibjörg Hafstað, námstjóri í nýbúafræðslu, grein í tímaritið Sveitarstjórnarmál og sagði:
Hugtakið „nýbúi“ var í byrjun notað yfir alla þá íbúa landsins sem höfðu annað móðurmál en íslensku. Merking orðsins hefur þróast og nær nú í munni margra eingöngu til fólks sem ber með sér að vera upprunnið í annarri heimsálfu. Einnig hefur orðið verið gagnrýnt af mörgum vegna þess að hérlendis er allnokkur hópur barna sem fædd eru á Íslandi og þekkja ekki annað þjóðfélag en það íslenska en hafa annað móðurmál en íslensku. Mörgum finnst það hljóma ankannalega að kalla innfædd börn nýbúa. (timarit.is undir nýbúafræðsla).
Í sama streng tók Toshiki Toma, prestur nýbúa, í grein sem hann birti í Morgunblaðinu í desember 2001. Hann segir að mönnum hafi gengið gott til þegar orðið „nýbúi“ var lagt til í stað „innflytandi“. Hann skrifaði:
Engu að síður er notkun orðsins orðin svolítið öðruvísi en ætlast var til. Skilningur á orðinu „nýbúi“ og notkun orðsins skiptist a.m.k. í tvennt. Annað er skilgreining í nýbúafræðslu eða skólakerfinu og hitt er notkun yfirleitt í þjóðfélaginu sem er undir miklum áhrifum frá fjölmiðlum. (Morgunblaðið, 28.12.2001 - Timarit.is.)
Þetta er fyllilega réttmæt skilgreining. Orðið nýbúafræðsla hefur ekki fengið á sig neikvæðan stimpil en nýbúi aftur á móti oft í fjölmiðlum og afar oft í bloggskrifum. Til að svara fyrirspurninni birti ég lokaorð Toshiki Toma og geri einnig að mínum:
Það er eðli samfélags mannkyns að breyta tiltekinni orðanotkun eða að skipta út orðum í sögu sinni. Það sem er heimilt þegar samfélag er ekki búið að læra um ákveðið málefni getur orðið óheimilt þegar það er búið að læra nóg. Með því að hugsa um orð og notkun þess þróast samfélagið sjálft líka. Um málefni kynþáttafordóma eða um málefni fatlaðra eru mörg slík dæmi til staðar. Er ekki kominn tíminn til að endurskoða líka orðið „nýbúi“ núna?
Að mínu mati er hlutverk orðsins „nýbúi“ búið. Það á að hverfa í náinni framtíð og opinberar stofnanir og fjölmiðlar eiga að sýna frumkvæði að því að hætta að nota þetta orð. Hvaða orð kemur þá í staðinn? Að finna rétta svarið er okkar sameiginlega verkefni. (Morgunblaðið, 28.12.2001 - Timarit.is.)
Heimildir:
Íslensk orðabók. 2002. I–II. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda: Reykjavík.
Íslensk samheitaorðabók. Ritstjóri: Svavar Sigmundsson. Forlagið: Reykjavík.
Guðrún Kvaran. „Hvort eru þeir sem kjósa að flytja til Íslands nýbúar eða innflytjendur?“ Vísindavefurinn, 6. janúar 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72943.
Guðrún Kvaran. (2017, 6. janúar). Hvort eru þeir sem kjósa að flytja til Íslands nýbúar eða innflytjendur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72943
Guðrún Kvaran. „Hvort eru þeir sem kjósa að flytja til Íslands nýbúar eða innflytjendur?“ Vísindavefurinn. 6. jan. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72943>.