Hvað getið þið sagt mér um forsliðinn kol- sem til dæmis má finna í orðunum kolólöglegt, kolvitlaust og kolrangstæður? Hvað þýðir það í þessu samhengi og hver er uppruni þess?Forliðurinn kol- er oft notaður í samsettum orðum til áherslu. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar (1989:490) er forliðurinn talinn skyldur nafnorðinu kol í merkingunni ‘eldsneyti, svört bergtegund mynduð af plöntuleifum í jörðu niðri; hálfbrunninn viður, viðarkol’. Hann nefnir sem dæmi kolbrenna, kolbrjálaður, kolfullur, kolryðgaður, kolsvartur. Kol- í sögnunum kolfalla ‘gerfalla, falla í hrönnum’ og kolfella ‘fella gjörsamlega, missa fé sitt í hrönnum af fóðurskorti’ segir Ásgeir að þekkist málinu frá 17. öld en einnig með forliðnum koll-, heldur yngri eða frá 18. öld, það er kollfalla, kollfella. Hann segir ekki fullljóst hvor forliðurinn sé eldri en giskar þó fremur á koll- og nefnir dæmin kollsóp, kollsteypa og kollvarpa. Sé kol- hins vegar upphaflegra sé upprunans helst að leita í sögninni kola í merkingunni ‘sálga, deyða’. Heimild:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Coal - Wikipedia. (Sótt 16.11.2016).