Athugasemd ritstjórnar Vísindavefsins
Þetta svar tilheyrir staðreynda- og samfélagsvakt Vísindavefsins. Það sama gildir um þessi svör og önnur á Vísindavefnum. Þau eru skrifuð af nafngreindum höfundum sem bera ábyrgð á efni svarsins. Lesandi sem telur svari áfátt getur bent ritstjórn á það og er svar þá lagfært ef höfundur fellst á það.Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Stenst það sem Bjarni Benediktsson sagði í fyrstu kappræðum forsvarsmanna á RÚV fimmtudagskvöldið 22. sept., að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei í aðdraganda kosninganna 2013 lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB?Rétt er að taka fram að Bjarni Benediktsson hélt því ekki fram í þættinum að þjóðaratkvæðagreiðslu hafi ekki verið lofað. Þess í stað svaraði hann spurningu um vanefndir kosningaloforðs með þessum orðum:
Þetta er bara rangt að þetta hafi verið helsta loforð okkar. Okkar loforð hefur staðið til þess að halda Íslandi utan Evrópusambandsins. [...] Í kjarnann vorum við að segja það að við erum viljug til að beita þjóðaratkvæðagreiðslum til að höggva á hnúta, þegar þess þarf með.[1]Allt kjörtímabilið hefur verið rætt um hverju Sjálfstæðisflokkurinn lofaði varðandi framhald viðræðna við ESB fyrir síðustu kosningar. Hér að neðan verður það útskýrt. Í aðdraganda alþingiskosninga 2013 samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins stefnu í utanríkismálum. Hvað varðaði aðildarviðræður við ESB, sem höfðu verið í hægagangi frá áramótum 2012/2013, var samþykkt að hætta þeim og taka þær ekki upp að nýju nema það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því var gengið lengra en í landsfundarályktun frá 2011 þar sem sagði að gera skyldi hlé á viðræðunum og ekki taka þær upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.[2] Í kosningabaráttunni vék forysta Sjálfstæðisflokksins hins vegar nokkuð frá þessari stefnu þegar hún talaði fyrir því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á nýju kjörtímabili um framhald yfirstandandi viðræðna við ESB. Bjarni Benediktsson nefndi þessa leið alloft í kosningabaráttunni.[3] Í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins frá 24.4.2013 var til dæmis haft eftir honum:
[...] við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.[4]Þó ber einnig að geta þess að fimm dögum áður, á beinni línu hjá DV, sagði Bjarni að slíta bæri viðræðum við ESB þar sem lýðræðislegt umboð skorti fyrir þeim.[5]

Augljóst misræmi var á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og orða leiðtoga hans í kosningabaráttunni. Misræmið gerði kjósendum erfitt að átta sig á því hver væri stefna Sjálfstæðisflokksins í málinu.
Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.[6]Seinna sögðu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna að óviturlegt væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna þar sem báðir stjórnarflokkarnir væru andsnúnir því að ganga í ESB þegar fyrir lægi hverjir ókostirnir væru. Bjarni Benediktsson kallaði það pólitískan ómöguleika að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem ríkisstjórnin væri andsnúin.[7] Tilvísanir:
- ^ Alþingiskosningar 2016: Leiðtogaumræður - RÚV. (Sótt 28.09.2016).
- ^ ESB-ályktanir flokksþinga hvor í sína áttina - mbl.is. (Sótt 23.09.2016).
- ^ https://www.youtube.com/watch?v=ErEGD3VO34E. (Sótt 23.09.2016).
- ^ Fréttablaðið, 24.04.2013 - Timarit.is. (Sótt 23.09.2016). Sjá líka: Bjarni samkvæmur sjálfum sér- Skynsamlegt að kjósa um ESB aðild á næsta ári « Eyjan. (Sótt 23.09.2016).
- ^ Meirihluti landsmanna vill klára aðildarviðræður við ESB: Bjarni ætlar að stöðva viðræðurnar « Eyjan. (Sótt 23.09.2016).
- ^ Stefnuyfirlýsing - Ríkisstjórn - Stjórnarráð Íslands. (Sótt 23.09.2016).
- ^ Ómögulegt án pólitísks vilja - RÚV. (Sótt 23.09.2016).
- Kjarninn. (Sótt 23.09.2016).