Athugasemd ritstjórnar Vísindavefsins
Þetta svar tilheyrir staðreynda- og samfélagsvakt Vísindavefsins. Það sama gildir um þessi svör og önnur á Vísindavefnum. Þau eru skrifuð af nafngreindum höfundum sem bera ábyrgð á efni svarsins. Lesandi sem telur svari áfátt getur bent ritstjórn á það og er svar þá lagfært ef höfundur fellst á það.Spurningin í heild sinni hljóðar svo:
Mánudaginn 15. ágúst segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftirfarandi á Alþingi: „Á þessum vanda höfum við verið að taka með þeim hætti að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálunum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013.“[1] Kolbeinn Óttarsson Proppé, aðalfulltrúi í flokksráði vinstri grænna, gagnrýnir þessi orð Bjarna í skoðanagrein sem birtist á Vísi þann 18. ágúst undir fyrirsögninni: „Segðu satt, Bjarni“.[2] Ég spyr: Segir Bjarni satt eða ekki?Samkvæmt vef Alþingis sagði fjármála- og efnahagsráðherra eftirfarandi:
Hvert hefur verið verkefni þessarar ríkisstjórnar á kjörtímabilinu? Fyrst og fremst þurfti ríkisstjórnin í upphafi að beita sér fyrir því að samfélagið fengi viðspyrnu, að við lokuðum botnlausum fjárlagahalla sem var orðinn viðvarandi vandamál og að heimilin fengju síðan viðspyrnu til að vera alvöruþátttakendur í þessu samfélagi. Það gerðum við á upphafsdögum ríkisstjórnarinnar. Fjárlagagatinu var lokað sem var alger forsenda þess að við gætum hafið uppbyggingarskeið að nýju. Það er svo sem alveg rétt sem sagt hefur verið, öll hefðum við gjarnan viljað setja meiri fjármuni hér og hvar í velferðarkerfið. Við hefðum svo gjarnan ekki viljað þurfa að glíma við niðurskurðinn á almannatryggingabótunum sem vinstri stjórnin leiddi yfir þá sem á þær þurfa að treysta. Við hefðum helst ekki viljað þurfa að fresta tækjakaupaáætlun og svo framvegis eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Á þessum vanda höfum við verið að taka með þeim hætti að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálunum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009-2013. Að öllum líkindum verður meiri afgangur á þessu ári en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar. Þetta gefur okkur viðspyrnu og tækifæri til að horfa til framtíðar og spyrja okkur: Hvernig förum við að því að byggja aftur upp betri heilbrigðisþjónustu en við höfum þurft að sætta okkur við á undanförnum árum? Hvernig förum við að því að mæta betur markmiðum okkar gagnvart eldri borgurum, öryrkjum og öðrum þeim sem við erum sammála um að helst þurfi á hjálparhönd að halda? Það birtist í okkar langtímaáætlun.Hugtökin „halli á ríkisfjármálum“ og „afgangur á ríkisfjármálum“ vísa oftast til svonefnds tekjuafgangs eða tekjuhalla ríkissjóðs (e. net lending/borrowing of central government). Tekjuafgangurinn kemur fram sem mismunar hreins sparnaðar (e. net operating balance) annars vegar og fastafjárútgjalda (e. net acquisition of nonfinancial assets). Til fastafjárútgjalda teljast fjárfestingar ríkissjóðs að frádregnum afskriftum en viðbættum fjármagnstilfærslum. Hugtakið hreinn sparnaður lýsir ágætlega hvort tekjöflunarkerfi ríkissjóðs skili nægum tekjum til að standa undir samtímaútgjöldum. Sé tekjuafgangur ríkissjóðs jákvæður er ríkissjóður að draga til sín meira fé frá öðrum þátttakendum í efnahagslífinu en hann skilar til baka í formi rekstrarútgjalda og fjárfestingar.

Hugtökin „halli á ríkisfjármálum“ og „afgangur á ríkisfjármálum“ vísa oftast til svonefnds tekjuafgangs eða tekjuhalla ríkissjóðs.
tekjur (1) |
útgjöld (2) |
útgjöld (31) |
|||
2008 | |||||
2009 | |||||
2010 | |||||
2011 | |||||
2012 | |||||
2013 | |||||
2014 | |||||
2015 |
(ríkisreikningur) |
(greiðslugrunnur) |
|
2008 | ||
2009 | ||
2010 | ||
2011 | ||
2012 | ||
2013 | ||
2014 | ||
2015 |
afgangur eða halli |
||||
Uppsafnað 2009-2013 | ||||
Uppsafnað 2014-2015 | ||||
Uppsafnað 2009-2015 |

Gera má ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra hafi haft tekjufærslu stöðugleikaframlaga slitastjórna föllnu bankanna í huga þegar hann setti fram fullyrðingu sína. Spurningin sem þarf að svara er því þessi: Er áætlaður afgangur ársins 2016 (326 milljarðar króna) hærri en uppsafnaður halli áranna 2009 til 2013 (389 milljarðar eða 464 milljarðar króna). Svarið við þeirri spurningu er nei.
- ^ Fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) - Munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr. - Ræður - Þingtíðindi - Þingfundir og mál - Alþingi. (Skoðað 12.10.2016).
- ^ Segðu satt, Bjarni - Vísir. (Skoðað 12.10.2016).
Viðbót við svarið (16.10.2016)
Fjármála- og efnahagsráðherra gerir athugasemd við svarið hér fyrir ofan, um réttmæti ummæla sem ráðherra lét falla á Alþingi 15. ágúst 2016. Athugasemdin birtist á Facebook-síðu Bjarna Benediktssonar 14. október 2016. Staðreynda- og samfélagsvakt Vísindavefsins barst spurning um réttmæti fullyrðingarinnar þann 15. september og leitaði til Fjársýslu ríkisins, bæði til að afla upplýsinga um tekjuafgang/halla áranna 2009 til 2013 samkvæmt skilningi ríkisreiknings og eins til að afla upplýsinga um ætlaðan afgang ársins 2016. Svar barst frá Fjársýslunni þann 10. október. Fjársýslan afsakaði tafir á svörum og upplýsti að samráð hefði verið haft við Efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Í svarinu kemur fram að uppsafnaður tekjuhalli ríkissjóðs, samkvæmt skilgreiningu ríkisreiknings, á árunum 2009 til 2013 hafi verið 387,8 milljarðar króna. Ennfremur kemur fram að afgangur ársins 2016 hafi verið áætlaður 345,6 milljarðar króna samkvæmt fjárlögum, en 325,8 milljarðar samkvæmt Frumvarpi til fjáraukalaga. Þá er bent á í svarinu að ætlað framlag til LSR séu 85,3 milljarðar króna. Á þeim tíma sem ummæli fjármála- og efnahagsráðherra féllu, stóð vilji stjórnvalda til þess að ganga til samninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna um breytingar á LSR. Inngreiðsla á skuldbindingar ríkissjóðs við A-deild LSR var meginstoðin í tilboði ríkisins gagnvart stéttarfélögum ríkisstarfsmanna. Í lok ágúst skrifaði formaður BHM-formönnum aðildarfélaganna bréf þar sem kemur fram að unnið sé að því í Fjármála- og efnahagsráðuneytinu að leggja A-deild LSR fé með framlagi á fjáraukalögum. Heildarsamtök stéttarfélaga opinberra starfsmanna undirrituðu síðan samkomulag þann 19. september sem fól í sér fyrirheit um umrætt framlag úr ríkissjóði til A-deildar LSR á árinu 2016. Að þessu virtu verður að draga þá ályktun að á þeim tíma sem fjármála- og efnahagsráðherra lét ummæli sín falla hafi verið fullur ásetningur af hans hálfu að ráðstafa um 90 milljörðum króna til LSR á árinu 2016. Gera verður ráð fyrir því að ráðherra hefði hagað orðum og gjörðum með öðrum hætti í ágúst og september 2016 hefði hann vitað að snuðra myndi hlaupa á þráðinn varðandi það samkomulag sem var í burðarliðnum um miðjan ágúst og sem var undirritað þann 19. september, samanber einnig frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016. Svar staðreynda- og samfélagsvaktarinnar miðast við þær upplýsingar sem unnið var með um miðjan ágúst 2016. Vel kann að vera að ráðherrann hafi ekki munað eftir fyrirhuguðu framlagi í LSR í ræðustólnum þann 18. ágúst, enda hendir slíkt besta fólk í hita leiksins. Það er mannlegt og einfaldast að viðurkenna slík mistök fremur en að fara langar krókaleiðir framhjá sannleikanum. Eins og fram kemur svarinu hér fyrir ofan byggir mest allur áætlaður afgangur ríkissjóðs á árinu 2016 á jákvæðri stöðu einskiptisliða. Sama á við um halla ársins 2008, sem að miklu leyti var tilkominn vegna yfirtöku ríkissjóðs á tapi af veðlánum Seðlabanka Íslands. Halli áranna 2009 til 2013 var tilkominn vegna samdráttar í tekjum í kjölfar bankahrunsins 2008 og vegna aukinna útgjalda til atvinnuleysisbóta og annarra félagslegra tilfærslna. Hallinn hefði orðið mun meiri en raun ber vitni hefðu stjórnvöld, með aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, ekki gripið til margvíslegra ráðstafana til að styrkja tekjuhlið ríkissjóðs og draga úr útgjöldum. Þær aðgerðir hafa líklega ekki gert núverandi ríkisstjórn erfiðara fyrir. Myndir:- Althing - Wikipedia, the free encyclopedia. Myndrétthafi er Zinneke. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 12.10.2016).
- Money | Peter | Flickr. Myndrétthafi er Peter. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 12.10.2016).