Er einhver þróun í jarðsjám og er farið að sjá fyrir um að veitufyrirtæki geti farið að nýta jarðsjá við leit á lögnum sem eru ekki skráðar í landupplýsingakerfi viðkomandi veitna? Þá á ég við handhægt tæki.Í svari við spurningunni Hvað er jarðsjá og hvernig er hún notuð? eftir Sigurjón Pál Ísaksson kemur fram að jarðsjá var þróuð út frá ratsjá eftir 1960. Hún byggist á því að rafsegulbylgjur eru sendar ofan í jörðina frá sendiloftneti og tekið á móti endurvarpsbylgjum með öðru loftneti sem haft er nálægt hinu fyrra. Breytileg rafsvörun og rafleiðni efnis framkallar endurvarp, og má þannig greina jarðlög og óreglur í þeim. Yfirleitt er farið með loftnetin eftir útmældum mælilínum, og fæst þá samfellt jarðlagasnið sem birtist á tölvuskjá. Lesendum er bent á að kynna sér meira um jarðsjár og notkun þeirra í áðurnefndu svari. Töluvert mikil þróun hefur verið í þessum geira og hefur það haldist í hendur við betri samhæfingu jarðsjár og GPS-mælinga annars vegar og svo þróun hugbúnaðar til að gera úrvinnsluna léttari hins vegar. Þannig er nú gjarnan mælt mjög þétt yfir ákveðin svæði, þau gögn eru svo lesin inn í þrívíða úrvinnslu og þannig sjást línuleg frávik mun betur en þau gerðu áður þegar stök snið voru skoðuð. Þetta er gjarnan gert með búnaði sem lítur út eins og garðsláttuvél og er hann keyrður yfir það svæði sem á að mæla. Reyndar er það svo að lagnir kortleggjast mjög misvel, þannig getur efnigerð, það er plast, steypa og járn eða jafnvel raflagnir gefið mjög misjafnt endurkast. Það voru einmitt raflagnir sem þvældust mikið fyrir fyrri kynslóðum svona tækja vegna truflunar af þeirra völdum. Þó að söluaðilar þessara jarðsjáa fullyrði eflaust að þær sjái allt, þá verður enn þá að taka því með ákveðnum fyrirvara, en vissulega sjá þær mjög mikið. Myndir:
- MALÅ EL Pro - Guideline Geo. (Sótt 1. 3. 2017).