Kulnun í starfi á sér aðdraganda og í raun má segja að það sé þriðja þrepið í ákveðnu ferli sem er eitthvað á þessa leið:
1. „Vinnutengd streita”: Á þessu stigi fer að bera á að skyldum, annað hvort félagslegum eða hefðbundnum vinnuskyldum verður ekki fullnægt vegna streitueinkenna, svo sem breytts lundarfars með þreytu og leiða, minnkaðri einbeitingarhæfni og stöðugum áhyggjum, sinnuleysi og ábyrgðarleysi, auk einkenna eins og svefnraskana og skorts á dug. 2. „Ofálag”: Í þessu stigi eru komnar fram verulegar takmarkanir á getu einstaklingsins til að sinna félagslegum og starfslegum skyldum sínum. Tíminn frá því vinnutengd streita kemur fram og þar til talað er um ofálag er tiltölulega stuttur eða innan við 3 mánuðir. 3, „Kulnun í starfi”: Geta til að sinna vinnuskyldum fullnægjandi er ekki lengur til staðar. Tíminn frá því fyrstu einkenni komu fram þar til þessi staða er komin upp er tiltölulega langur, jafnvel lengri en eitt ár. Þeir sem eru á þessu stigi finna sig dags daglega úrvinda, sinnulitla og þeim finnst þeir vanhæfir til að sinna skyldum sínum á vinnustað.Nú kann einhverjum að finnast þessi lýsing alveg eins geta átt við þunglyndi eins og kulnun í starfi en bent hefur verið á að grundvallarmunur sé á þessu tvennu. Þunglyndi er sjúkdómur sem í raun snertir alla fleti daglegs lífs einstaklingsins, en kulnun í starfi kristallast í kringum vinnustaðinn. Afleiðingar af kulnun geta hins vegar orðið alvarlegt þunglyndi, og/eða sálrænar eða líkamlegar kvartanir, til viðbótar við að einstaklingurinn er óánægður í starfi, ótrúr vinnustað sínum og hefur jafnvel löngun til að hætta. Svo virðist sem kulnun í starfi sé mest áberandi hjá þeim starfshópum sem með beinum hætti í störfum sínum bera ábyrgð á velferð annarra hópa. Í Hollandi hefur til dæmis verið áætlað að um 4% vinnandi fólks þjáist af kulnun í starfi, en að 9% kennara þar í landi og um 8% heimilislækna og hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun þjáist af kulnunareinkennum. Áhættuþættir kulnunar í starfi eru í raun ekki fullþekktir en líta verður til almennra áhættuþátta á vinnustöðum fyrir slæmri geðheilsu svo sem ónógs sjálfstæðis í verkum í samræmi við stöðu og menntun starfsmanna og krafna til þess hvernig starfsmaður stendur sig. Skipulag vinnustaða gegnir lykilhlutverki við að draga úr áhættuþáttunum, en í því sambandi er rétt að undirstrika mikilvægi félagslegs stuðning á vinnustað þegar verkefni eða kringumstæður eru erfiðar. Þetta svar er mikið stytt útgáfa af grein Kristins Tómssonar Kulnun í starfi á vefsetrinu Doktor.is og birt með góðfúslegu leyfi aðstandenda þess. Lesendum er bent á að kynna sér greinina í heild sinni þar sem umfjöllunarefninu eru gerð ítarlegri skil og heimildaskrá birt. Mynd: CeeBee: CareerBuilder.com's Job Search SmartyPants. Sótt 29. 10. 2008.