Ef kettir missa klær vaxa þær aftur og getur komið sýking?Já, kattaklær vaxa samfellt allt líf kattarins, líkt og neglur okkar mannanna. Það er þeim nauðsynlegt því annars hefðu ansi margir kettir stuttar og slitnar klær. Kettir eiga það til að merkja sér tré með því að klóra í það en það getur verið mjög slítandi fyrir klærnar. Slíkt háttalag er algengt hjá mörgum tegundum kattardýra, svo sem tígrisdýrum (Pantera tigris) og hlébörðum (Panthera pardus). Auk þess geta klær brotnað við veiðar og í áflogum. Brotnar klær geta skert verulega veiðifærni dýranna og möguleika þeirra til lífsbjargar. Ef köttur hins vegar missir kló alveg frá rótum er ekki sjálfgefið að hún komi upp aftur. Hvort sýking hljótist af er ekki auðvelt að svara og mælir Vísindavefurinn með því að eigendur katta leiti til dýralæknis til að athuga með slíkt. Myndir:
- Paw Claw | Aaron Coe | Flickr. Myndrétthafi er Aaron Coe. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 21.07.2016).
- claws | rawr | Lauren Elyse Lynskey | Flickr. Myndrétthafi er Lauren Elyse Lynskey. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 21.07.2016).